Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðuneyti Bjarna fékk skýrsluna 13. september

08.01.2017 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fékk sérstaka kynningu á skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, 5. október síðastliðinn. Þetta staðfestir Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samtali við fréttastofu.

Starfshópurinn skilaði enn fremur skýrslunni til ráðuneytis Bjarna þann 13. september síðastliðinn, og fékk samdægurs tilkynningu frá ráðuneytinu um að þar með hafi starfshópurinn lokið störfum. Engar efnislegar breytingar voru gerðar á skýrslunni eftir það. Þetta hefur fréttastofa fengið staðfest innan starfshópsins.

„Þing farið heim og kosningar fram undan“

Í fréttum RÚV í gær sagði Bjarni að skýrslan hefði ekki borist ráðuneytinu í endanlegri mynd, fyrr en eftir þingslit, sem voru 13. október. „Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar svona í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim. Það sem ég sagði í upphafi var að ég vildi láta taka þessa skýrslu saman til að kynna hana fyrir þinginu. Þegar skýrslan var í raun og veru endanlega tilbúin þá var þing farið heim og kosningar fram undan, engin nefnd að störfum í þinginu til þess að taka við henni og svo framvegis,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu. 

„Og ég hugsaði með mér, það líður nú að því að þing komi aftur saman og nefnd verði skipuð til að fara í þessi mál en allir vita hvernig mál hafa þróast síðan þá, svo ég var í raun og veru að bíða eftir því að við værum búin að setja saman ríkisstjórn og koma þinginu aftur í fullan gang til að hefja þessa umræðu, fyrst í samtali við þingið og svo taka það í almenna umræðu en þetta hefur bara dregist svo mikið, að mynda ríkisstjórnina.“

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði fimmtán sinnum frá 13. september og fram að þinglokum. Eftir 5. október, eða eftir að Bjarni fékk sérstaka kynningu á skýrslunni í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá formanni starfshópsins, voru fundir nefndarinnar fjórir talsins. Þá hefur efnahags- og viðskiptanefnd fundað fjórtán sinnum síðan að Alþingi kom aftur saman.

Vísar á bug að hann hafi haldið skýrslunni leyndri

Í viðtalinu í gær vísaði Bjarni því alfarið á bug að hann hafi setið á skýrslunni fram yfir kosningar, og nú reyni pólitískir andstæðingar hans að gera sér mat úr málinu. Allt tal um að hann hafi haldið henni leyndri sé þvættingur, fyrirsláttur og ekkert nema pólitík. „Þessi skýrsla var tekin saman að mínu frumkvæði, hún er komin fram, ég hef sagt að hún sé eitt innlegg af mörgum og ég bara vísa því algjörlega á bug að henni hafi með einhverjum hætti verið haldið leyndri. Það bara er ekki þannig.“

Fréttastofa spurði Bjarna í gær, hvort það hefði ekki brunnið á honum að sýna fólki skýrsluna þegar hann fékk hana í hendur. „Nei, ég sko, rétt fyrir kosningar, ef þú ert að tala um hvað ég er að gera í ráðuneytinu, þá er ég nú bara í kosningabaráttu.“  

Ósýnilegur texti á forsíðu skýrslunnar

Á forsíðu skýrslu starfshópsins, sem hægt er að nálgast í gegnum hlekk í frétt á vefsíðu efnahags- og fjármálaráðuneytisins hefur textinn „september 2016“ verið hvíttaður, þannig að hann er ólæsilegur. Hann er hins vegar hægt að afrita og líma inn í Word-skjal, þar sem umræddur texti sést. 

Fréttastofa hefur fengið staðfest innan starfshópsins sem vann skýrsluna að á forsíðu hennar hafi verið umræddur texti þegar henni var skilað til ráðuneytisins þann 13. september, eins og áður segir. Síðan þá hefur texti hennar verið prófarkalesinn og hann færður yfir á bréfsefni ráðuneytisins.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV