Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðist á björgunarsveitarmann á Ljósanótt

08.09.2019 - 03:11
Mynd með færslu
Reykjanesbær. Mynd úr safni. Mynd:
Björgunarsveitarmaður var fluttur slasaður á sjúkrahús eftir að hafa haft afskipti af manni sem ákvað að stinga sér til sunds undir Berginu í miðri flugeldasýningu Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, í gærkvöldi.

Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu. Maðurinn stakk sér til sunds við smábátahöfnina þegar flugeldasýningin stóð yfir og segir í frétt Víkurfrétta að vitni hafi heyrt manninn lýsa því yfir að hann ætlaði að synda til Hafnarfjarðar. Hann réðst svo á björgunarsveitarmann sem hafði dregið hann upp úr sjónum með þungum höggum.

Gert var hlé á flugeldasýningunni á meðan á björguninni stóð. Það var í annað skipti sem flugeldasýningin var stöðvuð í gærkvöldi en fyrst var gert hlé á henni þegar bátur sigldi inn á lokunarsvæði við Bergið.

Sigvaldi Lárusson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, segir að almennt hafi Ljósanótt gengið vel. Hátíðin stendur yfir í sex daga en aðalkvöld hátíðarinnar var í kvöld. Nokkuð hefur verið hellt niður af áfengi hjá ungmennum sem ekki hafa aldur til að drekka.

Fréttinni hefur verið breytt. 

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV