Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra segir vanta skýrari svör frá Mountaineers

08.01.2020 - 19:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd: RÚV / RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að forsvarsmenn fyrirtækisins Mountaineers of Iceland hafi ekki svarað því nægilega vel hvers vegna ekki var hætt við vélsleðaferð á Langjökul í gær. Búið var að vara við vondu veðri og hátt í 200 björgunarsveitarmenn þurftu að koma 49 manns til bjargar við illan leik.

„Mér finnst ekki hafa komið skýrt fram hvers vegna þeir tóku ákvörðun um að fara í ferðina. Ytri aðstæður voru augljósar,“ sagði Þórdís Kolbrún í fréttum í kvöld.

„Auðvitað verður maður fyrir miklum vonbrigðum að sjá svona mál. Í ráðuneytinu höfum við sett öryggismál í algjöran forgang, við höfum breytt regluverki og þess vegna er lögbundið að vera með öryggisáætlanir. Það er algjörlega skrifað í lögunum hvað á að vera þar inni. Það er lögbundið að taka mið af ytri aðstæðum. Þær voru þannig í gær að það var gul viðvörun. Börn á höfuðborgarsvæðinu áttu ekki að vera úti að labba, svo ég átta mig ekki á því hvernig þessi ákvörðun er tekin,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún segir að lögreglunni á Suðurlandi og Ferðamálastofu verði gefið svigrúm til þess að rannsaka málið. 

„En fyrirtækið þarf að skýra það með nánari hætti hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Íslensk ferðaþjónusta á allt undir að tryggja öryggi ferðamanna sem hingað koma.“

Þórdís segir að þetta mál geti skaðað ímynd íslenskrar ferðaþjónustu.

„Þetta getur að sjálfsögðu gert það. Ég sé ekki neitt í regluverkinu sem ætti að vera öðruvísi. Ábyrgðin liggur alfarið hjá fyrirtækinu. Það er ekki eins og upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Íslensk ferðaþjónusta væri ekki þar sem hún er ef ekki væri fyrir viðbragðsaðila. Við eigum allt undir að þessir hlutir séu í lagi,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.