Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðherra segir útgerðina líka bera ábyrgð á loðnuleit

Mynd með færslu
 Mynd:
Hafrannsóknastofnun segist ekki geta borgað útgerðum fyrir þátttöku í loðnuleit. Sjávarútvegsráðherra segir að útgerðin beri ábyrgð og skyldur, loðnuleit sé sameiginlegt verkefni.

Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, og skip útgerðanna hafa síðustu ár sinnt leit að loðnu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa nú sagt að þau ætli ekki að taka þátt í loðnuleit í vetur án þess að fá greitt fyrir.

„Maður skilur alveg þeirra sjónarmið, þessu fylgir kostnaður og það er ekki þeirra skylda að koma með í mælingar eins og þeir hafa gert síðustu árin,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Yfir 400 milljónum varið í rannsóknir á loðnu

Í fyrra greiddu útgerðarfyrirtækin 130 milljónir vegna loðnuleitar, sem var óvenjumikil. Sigurður segir að helmingur þeirrar upphæðar myndi hjálpa mikið. Kostnaður Hafrannsóknastofnunar hafi verið á milli 400 og 500 milljónir en inni í þeirri tölu eru einnig rannsóknir og leit að loðnu að hausti ásamt rannsóknum á loðnulirfum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun tóku fjögur skip frá útgerðum beinan þátt í vetrarmælingum á loðnu í fyrra, með mannskap frá Hafró um borð. Þau voru grænlenska skipið Polar Amaroq, Aðalsteinn Jónsson í eigu Eskju hf., Börkur í eigu Síldarvinnslunnar og Ásgrímur Halldórsson í eigu Skinneyjar Þinganess. Fleiri skip, íslensk, grænlensk og norsk hafi líka tekið þátt án þess að hafa haft mannskap frá Hafró um borð. 

Leit áætluð næsta mánudag

Sigurður segir að Árni Friðriksson fari í leit á mánudaginn ef veður leyfir. Leitin skili hins vegar meiri árangri með fleiri skipum og vonast hann til þess að málin leysist - en vísar á stjórnvöld; „Hafrannsóknastofnun á ekki peninga svo þetta veltur svolítið á hvað ráðuneytið og ráðherra getur gert í því efni“.

Treystir Hafró til þess að leysa málið

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir útgerðina einnig bera ábyrgð og skyldur, leitin sé sameiginlegt verkefni. Í fyrra hafi auknu fjármagni verið varið til loðnurannsókna og þeir fjármunir haldi sér í ár. Hann hefur enga trú á öðru en að lagt verði í sameiginlegan leiðangur. „Við munum leggja allan þann kraft sem að okkur er fær til þess og ég hef enga trú á öðru en að við náum samstarfi við útgerðina um slíkt verkefni, að því vinnur Hafrannsóknastofnun og ég treysti henni fyllilega til þess,“ segir Kristján Þór.