Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðherra gróðursetti með grunnskólabörnum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Í tilefni samstarfsyfirlýsingar Yrkjusjóðs, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar gróðursetti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, trjáplöntur í Þorláksskógum á Suðurlandi í dag ásamt hópi grunnskólabarna.  Yfirlýsingin erum aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála, segir á vef Stjórnarráðs Íslands. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Yrkjusjóður var stofnaður í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur. Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun grunnskólabarna á íslandi og kynna þannig mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu.

Börnin sem tóku þátt í gróðursetingunni í dag eru úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn. „Við komum hingað fyrir jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana,“ er haft eftir þeim Elísabetu Mörtu Jónasdóttur og Alexander Guðmundssyni á vef Stjórnarráðsins. „Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir jörðina að planta trjám“.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV