Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðherra á móti skertri vetrarþjónustu vegna veðurs

30.01.2020 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, hefur óskað eftir því við Vegagerðina að hún fari yfir hvernig bregðast megi við hallarekstri á vetrarþjónustu. Ekki sé hægt að skerða þjónustuna miðað við hvernig veðrið hefur verið í vetur.

Arna Lára Jónsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigurð Inga að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun um þær fréttir að Vegagerðin þyrfti að skera niður um tíu prósent í vetrarþjónustu, það er í hálkuvörnum og snjómokstri. Samt ætti að halda uppi sömu þjónustu.

Halli á rekstri vetrarþjónustunnar var um milljarður um síðustu áramót. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur árlegur kostnaður við vetrarþjónustu verið á bilinu 3-4 milljarðar síðustu fimm árin. Áætlaður kostnaður fyrir árið 2019 voru þrír milljarðar. Viðbótarkostnaður vegna aðventustormsins er um 180 milljónir.

„Við núverandi aðstæður, eins og veturinn hefur verið í vetur, þá getum við ekki farið að skerða þjónusta á þessum tíma. Ég hef beðið Vegagerðina að fara vel yfir þessa hluti. En auðvitað verður Vegagerðin eins og aðrar stofnanir ríkisins að standa fjárlög,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagði að ráðuneytið myndi skoða möguleikann á því að brúa bilið með því að taka fjármuni af viðhaldi eða nýframkvæmdum, annars þyrfti að óska eftir því við Alþingi að forgangsraða hærri upphæðum til samgangna í fjárlögum.