
Ráðast í viðamiklar framkvæmdir á flugvöllum
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að áformað sé að verja 500 til 600 milljónum króna til undirbúnings verkefnanna á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum á þessu ári.
„Viðbygging við flugstöð á Akureyri mun styðja við ferðaþjónustuna á Norðurlandi þegar uppbygging hefst eftir Covid-19 faraldurinn en einnig er áætlað að um 50 ársverk verði til við framkvæmdina. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli mun ennfremur auka öryggi flugvallarins. Stefnt er að því að bjóða verkið út á vormánuðum og má áætla að um 40 ársverk skapist hjá verktökum á svæðinu. Á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi almennt. Hægt verður að taka á móti stærri flugvélum sem skapa auk þess atvinnu á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Sigurði Inga Jóhanssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að mikilvægt sé að bregðast hratt við og gera langtímaáætlanir eins og kostur sé í þeirri erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda verði áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verði um garð genginn.