Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðast á aðra og deila myndum af því á samfélagsmiðlum

20.02.2020 - 19:08
Mynd: RÚV / RÚV
Myndskeið, sem sýnir hóp unglinga ráðast með höggum og spörkum á fjórtán ára dreng í síðustu viku, hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Faðir hans hefur kært árásina til lögreglu.

Við vörum við myndunum sem fylgja þessari frétt, en hluta upptökunnar af árásinni má sjá hér fyrir ofan.

Árás á fjölförnum stað

Fréttastofa hefur undir höndum myndskeið sem sýnir hrottalegt ofbeldi hóps drengja gegn einum fjórtán ára pilti. Árásin var gerð við biðstöð Strætós í Hamraborg í Kópavogi í síðustu viku. Fjölmargir voru viðstaddir en ekki er að sjá að neinn reyni að stöðva ofbeldið.

Sigurður Hólm Gunnarsson, forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga, segir mikilvægt að fólk bregðist strax við ef það verður vitni að ofbeldi á almannafæri. „Við sem almennir borgarar þurfum að vera dugleg við að grípa inn í ef við sjáum svona hluti og stoppa þá, ef við treystum okkur til. Hringja alla vega strax í lögregluna og helst stoppa atvikið ef við getum, því að nokkrum mínútum síðar getur það verið of seint,“ segir Sigurður. 

Sigurður stöðvaði árás hóps pilta á sama dreng í fyrra. Sumir árásarmannanna voru þá vopnaðir hnúajárnum. Það var um miðjan dag við verslunarkjarna í Grafarvoginum. „Við þurfum að skapa einhverja umræðu um þetta í samfélaginu. Foreldrar þurfa að fylgjast með börnunum sínum og ræða um ofbeldið við þau,“ segir Sigurður.  Mörg þeirra geri sér ekki grein fyrir því hversu hættulegt slíkt ofbeldi getur verið.

„Þetta virðist vera í tísku núna að ungt fólk sé að ráðast á aðra og taka það upp á símann sinn,“ segir Sigurður. Unglingarnir dreifa myndböndunum síðan á milli sín á samfélagsmiðlum. 

Ekki vitað hvað bjó að baki árásinni

Faðir piltsins segir að hann sé að jafna sig eftir árásina en glími við höfuðverk og uppköst. Hann telur mögulegt að útlendingaandúð búi að baki árásinni, en hann er af erlendum uppruna. Að hans sögn eru árásarmennirnir á aldrinum fimmtán til sautján ára, en börn teljast sakhæf þegar þau verða 15 ára. Ekki liggur fyrir hvað þeim gekk til. 

Sigurður segir að gerendurnir þurfi einnig á hjálp að halda. „Þetta eru oft krakkar sem að eiga erfitt og það er engum greiði gerður með því að gera lítið úr þeim eða gera þau að illmennum. Þetta eru einstaklingar sem að eiga erfitt og gerendurnir þurfa ekki síður aðstoð en þeir sem að verða fyrir þessum árásum,“ segir Sigurður.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV