Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pútín og Erdogan ræddu málin og sleiktu ís

27.08.2019 - 18:01
Mynd: EPA / EPA
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, keypti ís handa Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, þegar leiðtogarnir hittust á flugsýningu skammt frá Moskvu í Rússlandi í dag. „Borgar þú fyrir mig?“ spurði Erdogan og Pútín svaraði um hæl: „Auðvitað. Þú ert gestur minn.“

Pútín borgaði með 5000 rúblu seðli, andvirði tæplega tíu þúsund íslenskra króna en ísinn fyrir þá félaga kostaði bara ríflega 400 krónur. „Gefðu þróunarmálaráðherranum afganginn,“ sagði Pútín við íssalan en snerist svo hugur og lofaði öllum í föruneyti forsetanna ís.

Sífellt nánari tengsl rússneskra stjórnvalda við þau tyrknesku hafa verið sögð áhyggjuefni fyrir aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins (NATO). Tyrkir keyptu nýverið rússneskt eldflaugavarnarkerfi, S-400.

„Ég er að sjálfsögðu ánægður með að hitta þig í dag og ræða samskipti þjóða okkar,“ sagði Pútin við Erdogan í viðurvist fjölmiðlafólks. „Við ætlum að tala um þá stefnu sem við viljum að samstarf okkar fari auk viðkvæmari mála á þessu svæði.“

„Allir vita hversu stór skref rússneski flug- og geimferðaiðnaðurinn hefur tekið á síðustu árum,“ sagði Erdogan.

Bandaríski herinn telur að ekki sé að hægt að nota kerfið samhliða bandarískum orrustuþotum og að af því stafi hreinlega hætta. Tyrkir hafa átt í samstarfi með Bandaríkjunum um þjónustu við F-35 orrustuþotur fyrir botni Miðjarðarhafs.

Eftir kaupin á rússneska eldflaugavarnarkerfinu eru Bandaríkjamenn hættir samstarfinu. Viðskiptaþvingunum hefur jafnvel verið hótað gagnvart tyrkneskum stjórnvöldum.