Pútín kveðst ekki ætla að lengja valdatíð sína

04.02.2020 - 16:39
epa08175350 Russian President Vladimir Putin chairs a meeting on preventing the spread of coronavirus in Russia, in Moscow, Russia, 29 January 2020.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Rússlands, sem Vladímír Pútín forseti hefur lagt fram, eru ekki til þess gerðar að lengja valdatíð hans. Þetta sagði forsetinn í ávarpi í framhaldsskóla í rússnesku borginni Cherepovets í dag.

Um miðjan síðasta mánuð kynnti Pútín stjórnarskrárbreytingar, sem meðal annars fela í sér að völd þingsins verða aukin á kostnað valda forsetans. Þá á ríkisráð, sem Pútín stofnaði árið 2000 og sinnir formennsku í, að fá meira vægi við að leggja línurnar, bæði þegar kemur að innan- og utanríkismálum. Ríkisstjórnin fór frá völdum og ný örlítið breytt tók við. Helsta breytingin var sú að Dimitri Medvedev lét af embætti forsætisráðherra og Mikhail Mishustin, fyrrum skattstjóri, tók við. 

Sjá einnig: Hvað vakir fyrir Vladímír Pútín?

Dúman, neðri deild rússneska þingsins, hefur samþykkt tillögur Pútíns að stjórnarskrárbreytingunum en þær vöktu ótta með sumum um að með þessu ætlaði forsetinn að lengja valdatíð sína eftir nýverandi kjörtímabil rennur sitt skeið árið 2024 - að hann ætli að halda völdum með formennsku í valdameira ríkisráði. 

Pútín sagði í ræðunni í dag að á valdatíð sinni hafi honum orðið ljóst að hlutirnir virki ekki alltaf eins og best sé á kosið. „Oft koma upp mál varðandi heilbrigðiskerfið og menntakerfið og viðbragð sem ætti að koma kemur ekki frá sveitar- og borgarstjórnarstiginu.“ Þess vegna hafi hann lagt til að ríkisráðið fái meiri völd. Það hafi ekki verið gert til þess að lengja valdatíma hans. Ríkisráðið á einmitt að fá viss völd yfir borgar- og bæjaryfirvöldum. 

Navalny segir Pútín ætla að verða „leiðtoga fyrir lífstíð“

Andstæðingar Pútíns hafa fagnað þeirri breytingu sem Pútín hefur boðað að hver forseti geti aðeins setið tvö kjörtímabil og að þingið fái meiri völd. Þeir hafa hins vegar harðlega mótmælt því að ríkisráðið fái meiru ráðið. Til dæmis sagði Alexey Navalny, einn helsti andstæðingur Pútíns, á dögunum að með þessu vilji Pútín verða „leiðtogi fyrir lífstíð“.

Almenningur kýs um breytingarnar, að sögn Pútíns

Samkvæmt skoðanakönnun Levada Centre, sem er sjálfstætt fyrirtæki sem gerir skoðanakannanir, eru 47 prósent Rússa þeirrar skoðunar að breytingarnar séu gerðar með hagsmuni Pútíns í huga en 44 prósent telja að með þeim eigi að bæta stjórnkerfið. 

Pútín ítrekaði í ræðu sinni í dag að almenningur fái að hafa lokaorðið og kjósa um stjórnarskrárbreytingarnar. Rússneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að stefnt sé að því að kjósa um þær í vor. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi