Pútín hefur umsjón með rannsókninni

28.02.2015 - 08:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Boris Nemtsov var skotinn til bana í Moskvu í gærkvöld. Talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta tilkynnti í gærkvöld að forsetinn sjálfur myndi hafa umsjón með rannsókn málsins.

Boris Nemtsov hefur gagnrýnt stjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og tekið þátt í skipulagninu mótmæla gegn hernaðarátökum í Úkraínu. Pútín fordæmdi einnig morðið í gærkvöld og sagði allt benda til að um leigumorð sé að ræða. Nemtsov var skotinn fjórum sinnum í bakið á göngu yfir Mosvoretsky brúnna, skammt frá Kreml þar sem rússnesk stjórnvöld hafa aðsetur. Tilræðismennirnir komust undan en samkvæmt rússneska miðlinum Meduza stigu nokkrir menn úr bíl á brúnni, hleyptu af fjórum skotum og komu sér undan á bílnum.

Nemtsov var einn aðalskipuleggjenda mótmæla sem fyrirhuguð eru í Moskvu á morgun. Í viðtali nýlega sagðist hann óttast að Pútín myndi reyna að koma honum fyrir kattarnef vegna andstöðu hans við stríðið í Úkraínu.

Í yfirlýsingu sem Barack Obama Bandaríkjaforseti sendi frá sér í gærkvöld kemur fram að forsetinn fordæmi það sem hann kallar hrottalegt morð á manni sem hafi verið óþreytandi í baráttu sinni fyrir auknum mannréttindum rússneskra borgara. Hann var varaforsætisráðherra Rússlands í stjórnartíð Boris Jeltsín en hefur ekki verið í náðinni hjá arftaka hans.