Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Prjónar lopapeysur fyrir heilt barnaheimili

04.10.2019 - 07:06
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Kennari á Húsavík prjónar lopapeysu handa styrktarbarni sínu í SOS barnaþorpi í Rúmeníu. Hún lætur ekki þar við sitja heldur prjónar peysur á alla starfsmenn og íbúa barnaheimilisins sem eru fimmtíu og sjö talsins. Hún segir að það sé gott að geta gert eitt stórt góðverk.

Guðrún Kristinsdóttir segir að yngsta barn hennar og manns hennar hafi farið að heiman fyrir 5 árum. Þá hafi þau hjónin ákveðið að gerast SOS styrktarforeldrar. Síðan þá hafa þau verið styrktarforeldrar Cosminu, 17 ára rúmenskrar stelpu. Mynd af henni prýðir fjölskylduvegginn á heimili þeirra hjóna og segir Guðrún kímin að hún tali alltaf um hana sem fóstursystur barna sinna.

„Af hverju prjóna ég ekki bara lopapeysu á hópinn?“

Um síðustu jól las hún svo bréf frá Cosminu þar sem hún talaði um hversu kalt væri í Rúmeníu. „Þá hugsaði ég með mér; af hverju prjóna ég ekki bara lopapeysu á hópinn?“ segir Guðrún. Hún sendi SOS barnaþorpum á Íslandi fyrirspurn um hvort heimilið myndi vilja þiggja peysur. Því erindi var tekið fagnandi og fékk Guðrún upplýsingar um stærðir. Þann sjötta febrúar var hún byrjuð að prjóna.

Mynd með færslu
Mynd af Cosminu prýðir fjölskylduvegginn.

Vildi ekki skilja neinn út undan

Guðrún starfar sem grunnskólakennari og hafði verið formaður Völsungs í 7 ár þar til hún hætti í lok síðasta árs. Hún segir að þetta verkefni hafi kannski komið til út frá því þar sem hún yrði að hafa eitthvað fyrir stafni og ætti erfitt með að sitja aðgerðalaus. En hvers vegna að prjóna á allan hópinn? „Ég held ég hafi ekki viljað skilja neinn út undan, ég vildi að öllum væri hlýtt, ekki bara henni,“ segir Guðrún.

Iðulega með prjóna í höndunum

Guðrún telur að hver peysa taki að meðaltali 15 klukkutíma. Prjónaskapurinn hafi gengið vel og leiðinlegt veður í sumar hafi hjálpað til. Hún segir að hver stund sé nýtt og hún sé iðulega með prjóna í höndunum hvort sem það sé fyrir framan sjónvarpið eða þegar hún ferðist á milli landshluta. Af 57 peysum eru nú um 20 eftir og hefur Guðrún fengið þrjár vinkonur í lið með sér til að ljúka verkinu. Stefnan er að klára peysurnar og skila þeim suður í lok nóvember. SOS barnaþorp muni svo koma peysunum til skila fyrir jól. 

„Þetta er bara gaman og gott að geta gert eitt stórt góðverk,“ segir hún. Þetta sé verkefnið fyrir þetta árið. Þegar Guðrún er spurð hvert verkefnið verði á því næsta hlær hún og segir aldrei að vita nema það verði sokkar og vettlingar í stíl.