Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Prestar vilja helgidagafrið burt

11.04.2016 - 07:32
Biskupsvígsla Agnesar M. Sigurðardóttur.
 Mynd: RÚV
Prestafélag Íslands styður frumvarp þingmanna Pírata og Bjartrar framtíðar um að lög um helgidagafrið verði afnumin. Þetta kemur fram í umsögn Prestafélagsins við frumvarpið. Félagið telur að slík lög eigi ekki við í nútíma samfélagi þar sem fólk aðhyllist mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir og straumur ferðafólks hefur stóraukist.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í byrjun mars. Þar kemur fram að íslenskt samfélag hafi tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Samsetning íbúa hafi breyst mikið hvað varðar trúarbrögð og lífsskoðanir og þá hafi straumur ferðamanna til landsins aukist mjög - ekki síst um jól og páska. 

Á það er bent að á sama tíma og Ísland væri markaðssett sem áfangastaður yfir hátíðirnar væru flestir veitingastaðir og búðir lokuð á heilögustu dögunum. 

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2  og Bylgjunnar að hún teldi lög um helgidagafrið af hinu góða. „Þau styðja við og ramma inn líf okkar,“ sagði Agnes í viðtali við fréttastofuna í lok mars.

Prestafélag Íslands segir í umsögn sinni að ekki sé eðlilegt að fólki sé refsað fyrir ákveðnar skemmtanir á helgidögum kristins fólks. Prestafélaginu þykir þó eðlilegt að áfram verði talað um helgidaga - merking orðsins einskorðist ekki við ákveðna trúar - eða lífsskoðun heldur að hann sé helgaður einhverju öðru en vinnu hversdagsins og þar með helgi. Orðanotkun sem varði frídaga megi ekki vera of fátækleg.

Í sama streng tekur Viðskiptaráð Íslands - núgildandi lög takmarki einstaklingsfresli um of og séu barn síns tíma. Viðskiptaráð bendir á að ríflega 28 prósent Íslendinga standi nú utan Þjóðkirkjunnar - frelsi allra til atvinnurekstrar eða skemmtana ætti ekki að skerða á grundvelli hefðar þeirrar kirkju. Viðskiptaráð segir enn fremur að þótt lögin verði felld úr gildi verði réttur til frítöku á helgidögum enn til staðar.

BSRB segir í umsögn sinni að leggja verði áherslu á að tilgreint verði í frumvarpinu að brottfall laganna hafi engin áhrif á ákvæði kjarasamninga.