Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Prestafélagið mótmælir frystingu launa

13.12.2018 - 04:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Prestafélag Íslands mótmælir harðlega bráðabirgðaákvæði um launafrystingu í svokölluðu kjararáðsfrumvarpi, sem nú er til skoðunar og umsagnar á Alþingi. Frumvarpið tekur á þeim fjölmörgu og margvíslegu afleiðingum sem ákvörðunin um að leggja niður kjararáð hefur í för með sér. Bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu kveður meðal annars á um, að laun kirkjunnar manna skuli „ekki taka breytingum fyrr en samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar.“

Þetta vill stjórn Prestafélagsins ekki sætta sig við og „mótmælir harðlega þeim áætlunum að "frysta" laun biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar um óskilgreindan tíma,“ eins og segir í bréfi stjórnarinnar til nefndasviðs Alþingis. Þykir henni eðlilegra að „að þeir embættismenn sem hér um ræðir fái sömu meðferð og þeir aðrir sem undir kjararáð heyrðu og að laun þeirra verði endurskoðuð árlega til hækkunar eins og hjá öðrum.“

Þar sem ekkert liggi fyrir um endurskoðun samninga um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju sé óásættanlegt að setja þetta sem skilyrði fyrir breytingum á launagreiðslum starfsfólks kirkjunnar. „Með þessu er vegið harkalega að þeirri réttarvernd sem núgildandi samningar tryggja,“ segir í bréfi stjórnarinnar, sem krefst þess að ákvæðinu verði breytt án tafar svo embættismenn þjóðkirkjunnar standi jafnfætis öðrum sem áður heyrðu undir kjararáð. 

Yfirlýsing stjórnar Prestafélagsins í heild sinni:

12. desember 2018

Til nefndasviðs Alþingis

Efni: mótmæli stjórnar Prestafélags Íslands vegna "frystingar" launa sbr. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjaramál, þingskjal 554, 413.mál.

Stjórn Prestafélags Íslands mótmælir harðlega þeim áætlunum að "frysta" laun biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar um óskilgreindan tíma. Eðlilegt er að þeir embættismenn sem hér um ræðir fái sömu meðferð og þeir aðrir sem undir kjararáð heyrðu og að laun þeirra verði endurskoðuð árlega til hækkunar eins og hjá öðrum.

Ekkert liggur fyrir um væntanlega endurskoðun samninga um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Því er óásættanlegt að tengja saman og skilyrða slíka endurskoðun samninga og launagreiðslur þeirra embættismanna sem hér um ræðir, enda hafa þeir enga aðkomu að þessum samningaviðræðum. Með þessu er vegið harkalega að þeirri réttarvernd sem núgildandi samningar tryggja.

Stjórn PÍ krefst þess að ákvæði þessu til bráðabirgða verði breytt án tafar og að embættismenn þjóðkirkjunnar standi jafnfætis öðrum sem undir kjararáð heyrðu.

Virðingarfyllst

Fyrir hönd stjórnar Prestafélags Íslands

Ninna Sif Svavarsdóttir

Formaður PÍ.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV