Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pósturinn hættir með fjölpóst og segir upp fleiri en 30

29.01.2020 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandspóstur - postur.is
Pósturinn hefur sagt upp rúmlega 30 starfsmönnum í flokkun og dreifingu á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi. Samhliða því tilkynnir fyrirtækið að það muni hætta dreifingu á ónafnmerktum fjölpósti á þessu svæði frá og með 1. maí. Sparnaðurinn vegna þessa nemur um 200 milljónum króna á ári samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Breytingin hefur áhrif á um 40 starfsmenn, en í tilkynningunni segir að hægt sé að færa um tíu starfsmenn til í starfi innan fyrirtækisins. Rúmlega 30 er hins vegar sagt upp í dag og mun fyrirtækið bjóða stuðning við starfslokin í formi sálfræðiþjónustu og ráðgjafar við atvinnuleit, að því er segir í tilkynningunni.

„Áður fóru bréfberar í nær öll hús með bréf og því féll það vel að starfseminni að dreifa fjölpósti á sama tíma en nú hefur bréfum fækkað svo mikið að oft fara bréfberar eingöngu með fjölpóst en engin bréf og því er lítill rekstrargrundvöllur fyrir þessari þjónustu.

Einnig ber að horfa til þess að sífellt stærri hópur almennings vill ekki fá fjölpóst, m.a. vegna umhverfissjónarmiða, og hefur sá hópur stækkað mikið á síðustu misserum. Sú þróun mun halda áfram með aukinni umhverfisvitund almennings og þróun á stafrænum lausnum. Þetta leiðir til þess að mikið magn pappírs sem sent er í dreifingu verður eftir í kerfi Póstsins sem flækir starfsemina og skapar kostnað og óhagræði,“ segir í tilkynningunni.

Fækkuðu stöðugildum um 80 í ágúst

Íslandspóstur tapaði 293 milljónum króna árið 2018, en hagnaðist um 216 milljónir árið áður. Í lok 2018 óskaði fyrirtækið eftir eins og hálfs milljarðs króna neyðarláni frá ríkinu sem var samþykkt á Alþingi. Lánið var háð skilyrðum um að fyrirtækið stæði við fjárhagslega endurskipulagningu ásamt því að halda þingheimi upplýstum um gang mála

Í ágúst í fyrra sagði Íslandspóstur upp 43 starfsmönnum og áætlaði að fækka stöðugildum um 80 á árinu. Þá var sagt að verið væri að miða að því að tryggja sjálfbæran rekstur fyrirtækisins og nútímavæða starfsemina. 

Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir í fréttatilkynningunni í dag að uppsagnirnar nú séu liður í endurskipulagningunni. 

„Umbreyting fyrirtækisins hefur gengið vel og nú þegar má merkja viðsnúning í rekstrinum en ljóst er að verkefninu er hvergi nærri lokið og betur má ef duga skal. Við erum önnum kafin við að aðlaga reksturinn að kröfum á nútíma markaði en í svona endurskipulagningu þarf að horfast í augu við staðreyndir og taka margar erfiðar ákvarðanir, þessi ákvörðun er ein þeirra,“ segir Birgir.