Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Póstkort frá Íslendingum víða um heim

25.03.2020 - 20:00
Mynd: Grafík/RÚV / Grafík/RÚV
Það er ekki bara hér á landi sem fólki er uppálagt að halda sig heima og takmarka samneyti við annað fólk. Fjöldi Íslendinga er búsettur erlendis og þeirra bíða sömuleiðis alls kyns áskoranir í löndunum sem þau búa í.

„Staðan í Berlín er sú að hér er búið að setja samkomubann fyrir fleiri en tvo einstaklinga, að undanskildu auðvitað fólki sem býr saman,“ segir Svala Hjörleifsdóttir, sem búsett er í Berlín. 

„Okkur er öllum gert að halda okkur heima og ekki fara út nema í örfáum undantekningartilfellum. Það ríkir mikil óvissa um hversu lengi þetta ástand mun vara og fólk er áhyggjufullt yfir geðheilsu sinni á meðan það er fast heima,“ segir Cecilía Þórðardóttir í London. 

„Hér á Nýja Sjálandi, frá og með 26.mars, þá er öllum fyrirskipað að halda sig heima og eingöngu nauðsynleg þjónusta verður í gangi.  Þannig verður þetta næstu fjórar vikurnar. Flestir taka þessu nú bara með ró og ég held að flestum finnist þetta vera hárrétt ákvörðun hjá stjórnvöldum,“ segir María Guðjónsdóttir, sem býr með fjölskyldu sinni á Nýja Sjálandi. 

„Hér er búið að loka landinu þannig að hingað koma engir fleiri túrirstar í bráð. Farbann um nætur er líka orðið að raunveruleika, frá og með morgundeginum það er að segja. Það er búið að loka öllum skólum og flestum veitingastöðum allt hér í kring. Það er enginn matarskortur í landinu, ekki af ráði allavega. Hér er alltaf hægt að grípa ávexti og veiða fisk úr sjó. Bjartsýni almenn í landinu, fólk er vongott um að lífið haldi áfram um leið og þessi faraldur er yfirstaðinn,“ segir Héðinn Svarfdal, sem er búsettur á Kosta Ríka. 

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá póstkort frá Íslendingum sem búsettir eru víða um heim. Þau lýsa ástandinu í löndunum sem þau búa í vegna Covid-19 faraldursins. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV