Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pólverjar á Íslandi orðnir nærri 20.000

16.07.2019 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Erlendum ríkisborgurum sem eru búsettir á Íslandi heldur áfram að fjölga. Þeir voru alls tæplega 47 þúsund 1. júlí og hafði fjölgað um 5,8% síðan 1. desember í fyrra. Pólverjar eru langfjölmennastir og voru 19.909 í júlíbyrjun. Þeim hafði þá fjölgað um 3,7% síðan í byrjun desember.

Á sama tíma, frá 1. desember til 1. júlí, fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem eru búsettir á Íslandi um 0,4%, samkvæmt samantekt frá Þjóðskrá, og voru tæplega 314 þúsund. Allt í allt voru íbúar landsins rúmlega 360 þúsund 1. júlí.

Á eftir Pólverjum eru Litháar fjölmennastir erlendra ríkisborgara á Íslandi. Þeir voru 4.388 1. júlí og hafði fjölgað um 7,2% frá 1. desember. Þriðji fjölmennasti hópurinn er frá Lettlandi, og á eftir koma Rúmenar, Portúgalar, Þjóðverjar, Bretar, Spánverjar, Filippseyingar og Danir.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV