Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pólskukennsla ekki til að troða á tám íslenskunnar

06.02.2020 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kennurum og öðru starfsfólki skóla á Suðurnesjum býðst að sækja námskeið í pólsku til að skilja nemendur og foreldra frá Póllandi. Verkefnastjóri miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum segir það ekki gert til að draga úr íslenskukennslu, heldur til að bæta skilning.

Hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi er hæst í Reykjanesbæ. Um það bil 26 prósent íbúa þar eru frá öðrum löndum. Meðaltalið á Suðurnesjunum öllum er 24 prósent eða um einn af hverjum fjórum íbúum. Af þeim rúmlega 50 þúsund innflytjendum sem búa á landinu eru Pólverjar langfjölmennastir, rétt yfir 19 þúsund talsins.

Kristín Hjartardóttir er verkefnastjóri miðstöðvar símenntunnar á Suðurnesjum. Miðstöðin býður upp á pólskunámskeið fyrir kennara og annað starfsfólk grunnskóla. Hún segir að námskeiðið hafi verið sett upp að frumkvæði grunnskólakennara í Reykjanesbæ. Það sé hugsað sem grunnþekking í pólsku svo að fólk geti bjargað sér.
 

„Bæði það, og svo erum við með kannski nemendur sem eru farnir að tala íslensku, en foreldrarnir skilja hvorki íslensku né ensku. Svo að maður geti svona bjargað sér í grunnatriðunum. Þau nái svona einhverjum samskiptum og tjáningu þarna á milli, í staðinn fyrir að vera alltaf með túlk sem millilið,“ segir Kristín.

Kristín segir að námskeið sem þessi séu viðbót við tungumálakennslu á Suðurnesjum, en ekki til þess gerð að draga úr mikilvægi íslenskukennslu. Mikilvægt sé að samskipti séu þannig að allir skilji.

„Og bara að geta skilið nemendurna þegar þau eru að koma, hvort sem það eru að tala saman tveir pólskir nemendur eða nýfluttir til landsins,“ segir Kristín.