Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pólitískur subbuskapur og rasistar

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar sagði framgöngu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarstjórn vera pólitískan subbuskap, í umræðum um afturköllun samþykktar um að sniðganga ísraelskar vörur. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagði Íslendinga fá á sig ímynd rasista vegna málsins.

„Ég vona að borgarfulltrúar hafi ekki hér verið að hvetja aðila til að krefjast skaðabóta af borginni vegna afleidds tjóns," sagði Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í borgarstjórn, í umræðum um afturköllun tillögu um að sniðganga ísraelskrar vörur vegna hernáms palestínskra landsvæða.

Björn sagði borgarstjóra hafa brugðist við af auðmýkt. „Ég verð líka að segja það að mér finnst krafa um afsögn borgarstjóra, og umræða um einhverja meinta sjálfhverfu hans, það mætti kalla það einhvers konar yfirspil." Hann spurði hvort borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins væru að veita meirihlutanum aðhald eða að reyna að valda pólitískum skaða.

Björn setti málið í samhengi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innlimunar Krímskaga og stríðsins í Úkraínu. Þá hefði verið kallað eftir því að utanríkisstefna yrði mótuð með hliðsjón af makrílhagsmunum. Þá vísaði hann til þess að Kínverjar hefðu dregið úr viðskiptum við Norðmenn eftir að andófsmaður hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels.

Ekki var nógu vel staðið að samþykkt borgarstjórnar í síðstu viku, sagði Björn. Til hafi staðið að útfæra sniðgönguna eftir á en síðan hafi ekki gefist tími til þess.

„Ekki einleikið að búa við slíka sjálfhverfu"

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallavina í borgarstjórn, gagnrýndi borgarstjórnarmeirihlutan fyrir samþykkt tillögunnar og sagði hana hafa valdið margvíslegum skaða fyrir íslenska hagsmuni og íslenskra fyrirtækja. Hún sagði að borgarstjóri hefði viðurkennt að samþykkt tillögunnar hefði verið slæm en þar vísað til þess að hún hefði verið slæm fyrir borgarstjórnarmeirihlutann. „Það er ekki einleikið að búa við slíka sjálfhverfu."

Sveinbjörg sagði að eftir að upplýsingar fengust um bréf bankastjóra Arion banka til borgarstjóra hefði komið fram að málið væri farið að snerta hagsmuni Reykvíkinga beint. „Þarna vorum við komin í verkefni sem snerti beint tekjur til Reykjavíkurborgar," sagði Sveinbjörg og spurði hvort þetta gæti verið ástæðan fyrir því að borgarstjóri hefði dregið í land.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur gert margvísleg mistök en alltaf reynt að koma sök á aðra sagði Sveinbjörg. Það tækist þó ekki í þessu tilviki þar sem sökin lægi alfarið hjá borgarstjórnarmeirihlutanum. Sveinbjörg Birna sagðist myndu óska eftir lögfræðiáliti um hvort skaðabótaskylda hefði skapast hjá Reykjavíkurborg vegna málsins.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði að Sveinbjörg hefði teygt sig mjög langt í fullyrðingum um skaða sem yfirlýsingin hefði valdið, en ekki hefði verið sýnt fram á. Hann tiltók sérstaklega að forsvarsmaður hótelbyggingar við Hörpu hefði sagt að þetta yrði ekki til að skaða það verkefni.

Vill ekki sækja ráðgjöf til Kaupmannahafnar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja best að borgin sendi ekki frá sér frekari yfirlýsingar um málið. Hann setti sérstaklega spurningamerki við að leitað væri ráða hjá borgaryfirvöldum í Kaupmannahöfn, til „okkar gömlu yfirboðara, það er umdeilt hvað við fengum góð ráð frá þeim háu herrum í Kaupmannahöfn".

„Við sjáum í fjölmiðlum að það hefur orðið eitthvert tjón. Það er seinni tíma mál að hversu miklu leyti það lendir á borginni," sagði Kjartan. Hann sagði að það væri lögfræðinga að skoða það mál og staða borgarinnar hlyti að versna ef í ljós kæmi að samþykkt borgarinnar væri ólögleg. Hann sagði að jafnvel þó komist yrði að þeirri niðurstöðu að bæri borgin ekki lagalega ábyrgð þá bæri borgarstjórnarmeirihlutinn eftir sem áður pólitíska ábyrgð.

Sjaldgæft að ráðamenn viðurkenni mistök

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði það sjaldgæft að stjórnmálamenn á Íslandi viðurkenndu mistök og bæðust afsökunar. Hann sagði ýmis stór mál koma upp í hugann í þessari umræðu. Þar á meðal væri einkavæðing ríkisbankanna og það að setja Ísland á lista yfir ríki sem studdu innrásina í Írak. Hann setti kröfur um afsögn borgarstjóra í samræmi við þessi mál. Hann sagði fjarri lagi að krefjast afsagnar borgarstjóra fyrst þessi mál hefðu ekki leitt til afsagna ráðherra.

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, lagði áherslu á að málinu yrði að ljúka núna. Hann sagði ljóst að yfirlýsingin frá í síðustu viku væri dregin til baka en sagði að greinargerðin eð afturköllun tillögunnar fæli í sér að halda ætti áfram á sömu braut. „Dragið greinargerðina til baka."

Kviki ekki frá því að þetta sé rétt leið

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, sagðist styðja afturköllun samþykktarinnar en ekki kvika frá sannfæringu sína um að þetta væri rétt leið. Hún sagði mikilvægt að vinna málið áfram og nýta þekkingu og reynslu annarra borga sem hefðu farið sömu leið. Hún sagði borgarstjórnarmeirihlutann hafa gert mistök en ekki brotið nein lög. Hún gagnrýndi þá sem krefðust afsagnar borgarstjóra og sagði þá gera lítið úr afsagnarkröfum eða gera meira úr efni málsins en tilefni stæði til.
„Friðar- og mannréttindaborgin Reykjavík gefur ekki eftir. Hún þarf bara að vanda sig aðeins betur, vera beittari," sagði Sóley.

Pólitískur subbuskapur

Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði framgöngu minnihlutans í borgarstjórn síðustu daga einkennast af pólitískum subbuskap. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallavina hefðu ekki talað af miklum krafti gegn samþykkt tillögunnar í síðustu viku en gerðu það af mun meiri krafti nú.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Framsókn og flugvallarvinum, og Kjartan Magnússon, Sjálfstæðisflokki, andmæltu þessum orðum Magnúsar. Kjartan sagðist hafa verið gagnrýndur fyrir það í síðustu viku að hann hefði verið of harðorður í andstöðu sinni við tillöguna, nú væri honum legið á hálsi að gera ekki nóg. Kjartan sagðist hafa notað orðin tvískinnungur og hræsni í umræðunni, en það gerði hann alla jafna ekki.

Meirihlutinn geri lítið úr skaða sem hann hafi valdið

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að menn yrðu að skoða hvaða áhrif þetta hafi á orðspor Íslendinga: „Við erum rasistar," sagði hún um ímyndina sem stæði eftir. „Þið eruð meira að segja búin að gera lítið úr þeim skaða sem þjóðin hefur orðið fyrir og fram hefur komið í fjölmiðlum."

Áslaug sagði að það sem skipti öllu máli væri að lágmarka skaðann sem meirihlutinn hefði valdið með því að senda út skilaboð um það að sniðganga vörur frá heilli þjóð sem væri hvort tveggja ólöglegt og rangt.

„Segjum að nasistar kæmust hér til valda og þeir ákveddu að setja einhvers konar bann á hluti, fara í gegnum innkaupastefnuna og segja að þetta sé einhvern veginn þannig að hér sé verið að brjóta á fólki. Þið eruð í raun að gera þetta en þið teljið að þið séuð ekki nasistar því þið eruð góða fólkið," sagði Áslaug og bætti við. „Mér finnst þið sýna svo ógeðslega lítinn skilning á því sem þið gerðuð fyrir viku."

Hér má lesa fyrri hluta umræðunnar í borgarstjórn.