Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Planta trjám til að kolefnisjafna ferðir sínar

26.08.2019 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Geir Vigfússon - Aðsend mynd
Norrænir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrar funduðu í dag um loftslagsbreytingar. Að fundi loknum gróðursettu ráðherrarnir tré í Gunnarsholti til þess að kolefnisjafna ferðir sínar.

Ræða áhrif loftslagsbreytinga á Norðurlöndin

Á fundinum var rætt um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurlöndin, sér í lagi hvað varðar landbúnað og skógrækt, og hvernig takast mætti á við breytingarnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sammæltust ráðherrarnir á fundinum um að Norðurlöndin ættu að vinna saman að leiðum til þess að binda koltvísýring í jarðveg. Þá ættu þau að beita sér gegn svokölluðum drauganetum í sjónum, það er, veiðarfærum sem verða eftir og þarf að fjarlægja.

Utanríkis- og öryggismál í brennidepli norræns samstarfs

Ráðherrafundurinn fór fram í morgun og var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Ísland fer með formennsku í nefndinni í ár.

Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna fór fram í síðustu viku hér á landi. Forsætisráðherrarnir, ásamt leiðtogum Álandseyja og Grænlands, funduðu í Hörpu á þriðjudaginn. Í kjölfarið undirrituðu þeir yfirlýsingu um sjálfbærni og jafnrétti með forstjórum aðildarfyrirtækja Samtaka norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð. Að því loknu var haldið á blaðamannafund í Viðey þar sem forsætisráðherrarnir fluttu stutt ávörp og svöruðu spurningum blaðamanna. Angela Merkel, kanslari Þýskalands var sérstakur gestur sumarfundarins.

Í byrjun september fundar Norðurlandaráð í Helsinki. Fundirnir marka upphaf á pólitísku starfi haustsins, segir á vef Norden. Norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála verður í brennidepli. Sjötugasta og fyrsta þing Norðurlandaráðs verður svo haldið í Stokkhólmi í lok október.