Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Pissupása Ævars í stærstu sögustund landsins

Mynd: cc / cc

Pissupása Ævars í stærstu sögustund landsins

05.04.2018 - 09:10

Höfundar

Á hverju ári í tengslum við dag barnabókarinnar er ný íslensk smásaga frumflutt samtímis í öllum grunnskólum landsins. IBBY samtökin á Íslandi skipuleggja viðburðinn. Ævar Þór Benediktsson semur söguna í ár sem nefnist Pissupása. Hægt er að hlusta á lestur hans á sögunni hér.

„Mér finnst mjög töff að vera beðinn um að semja söguna í ár,“ sagði Ævar Þór Benediktsson í viðtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur, í útvarpsþættinum Segðu mér, áður en hann hóf lestur sögunnar.

Pissupása er saga um samskipti, segir Ævar. „Hún er um það að við eigum að stoppa stundum, hlusta aðeins og vera tilbúin til að sætta okkur við að stundum neyðumst við til að læra eitthvað nýtt. Og það er bara gott.“

Sagan segir af kynnum kattanna Snúllu-Dúllu og Brands við hundinn Snata. Ævar ólst upp í sveit og segist því þekkja hunda og ketti mjög vel. „Ég á kött núna; ég bý reyndar í blokk, á þriðju hæð þannig að hann er inniköttur. Er alltaf að kíkja út um gluggann að njósna. Mér þykir vænt um ketti. Kettir eru mjög dramatískir og af því að ég er leikari þá passar það bara fínt. Við erum dramatísk stétt. Allar tilfinningar hjá köttum eru mjög stórar; þeir verða auðveldlega móðgaðir en sumir eru fljótir að fyrirgefa.“

Ævar segir að það hafi lengi blundað í honum að skrifa um ketti. „Mér fannst upplagt að nota þessa hefðbundnu staðalímynd af óvinum í dýraríkinu sem geta verið fínustu vinir í raunveruleikanum.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lestrarstund fyrir 40.000 grunnskólabörn