Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Píratar ósáttir við verklag í þingsal

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra á Alþingi í dag hvort fleiri þingmenn og ráðherrar þurfi ekki að taka þátt í málþófi Miðflokksmanna um þriðja orkupakkann til þess að leiðrétta rangfærslur. Forsætisráðherra benti á að umræður hafi staðið yfir í langan tíma þar sem allir flokkar hafi komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Fleiri þingmenn Pírata lýstu yfir óánægju sinni við störf forseta Alþingis.

Spurði hvort fleiri ættu ekki að taka þátt í málþófinu

Helgi Hrafn lagði fram fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvort hún teldi ekki nauðsynlegt að þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna tækju virkari þátt í málþófi Miðflokksins um þriðja orkupakkann. 

„Bábiljurnar og rangfærslurnar eru farnar víða í samfélaginu,” sagði Helgi Hrafn og spurði hvort stjórnarflokkarnir ætluðu ekki að verja málið af meiri krafti með því að svara í þingsal eða skrifa greinar. „Fólk veit ekki betur og getur ekki vitað betur.”

Skilur áhyggjur Helga Hrafns

Katrín benti á að þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna hefðu margoft tekið þátt í umræðunum, síðast Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en sagðist skilja áhyggjur Helga Hrafns af þeim rangfærslum sem virtust vera á lofti varðandi efnisatriði þriðja orkupakkans. 

Helgi Hrafn steig aftur í pontu og bætti við að stjórnmálamenn láti oft eins og það sé ekki á þeirra ábyrgð að bregðast við þegar aðrir stjórnmálamenn gera eitthvað.

„Þessi umræða er í samfélaginu. Það er fólk sem trúir því að það sé verið að ganga á sjálfstæði og auðlindir íslands. Sem er ekki rétt. En fólkið verður að heyra það og það verður að heyra það oft. Þurfum við ekki að taka þátt í þessari umræðu?”

Katrín sagði þá að vissulega fæli orkupakkinn ekki í sér afsal Íslands á auðlindir eða fyrirtæki og að lagning sæstrengs verði aldrei nema Alþingi samþykki það.  

Sögðu forseta gera upp á milli þingmanna

Að óundirbúnum fyrirspurnum loknum beið Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í ræðustól undir liðnum fundarstjórn forseta og furðaði sig á því að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, virtist stytta fyrirspurnartíma þingmanna Pírata í ræðustól frekar en annarra, en forseti hafði þá beðið þá Helga Hrafn og Jón Þór Ólafsson að koma sér að efninu áður en ræðutíma þeirra var lokið. 

„Er svona óþægilegt þegar við komum í pontu að forseti tekur ákvörðun að stoppa okkur í miðjum ræðum?” spurði Halldóra. 

Steingrímur benti á að menn ættu að halda sig við umræðuefnið og það gerist æ oftar að þingmenn stígi í ræðustól og ræði eitthvað allt annað en það sem er á dagskrá.  

Fékk ekki að setja O3 á dagskrá strax

Forseti ætlaði síðan aftur að reyna að setja umræður um þriðja orkupakkann á dagskrá, en Jón Þór steig þá í ræðustól undir liðnum fundarstjórn forseta og bað Steingrím að gæta jafnræðis í bjölluhljóm. Helgi Hrafn fór á eftir honum og undirstrikaði óánægju sína og bar saman við málþóf Miðflokksmanna sem fá að tala óhindrað. 

Steingrímur benti þá á að það sé mikill munur á dagskrárliðum, hvort um sé að ræða óundirbúnar fyrirspurnir eða umræður um mál. Ekki eigi að beina spjótum að mönnum sem ekki komast að í umræðunni og ekki eigi að veitast að þingmönnum sem hafa ekki tækifæri til að svara fyrir sig. „Ekki veitast að þeim sem eru dauðir í umræðunni,” sagði forseti, sem eru þeir sem ekki eiga ræðurétt. 

Þakkaði varaforseta sínum stuðninginn

Jón Þór hleypti ekki umræðunni um orkupakkann alveg strax af stað, heldur steig í ræðustól og sagðist sammála forseta og að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá honum. 

„Forseti þakkar varaforseta sínum stuðninginn,” sagði Steingrímur þá að lokum. Síðan héldu þingmenn Miðflokks áfram að ræða þriðja orkupakkann, eða framhald síðari umræðu um Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál, þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.