Píratar mælast með 24 þingmenn

01.06.2015 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Píratar bæta enn við sig fylgi í könnunum og mælast nú með meira fylgi en stjórnarflokkarnir samanlagt í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Gallup mældi fylgi við flokka frá 30. apríl til 28. maí. Nokkrar breytingar hafa orðið á fylginu frá fyrri mánuði. Fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað jafn og þétt á kjörtímabilinu. Nú mælist hann með 8,9% fylgi og hefur ekki mælst með minna fylgi síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók við formennsku í flokknum í byrjun árs 2009. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23% og Samfylkingin 12,4%. Vinstri græn mælast með 9,8%, Björt framtíð með 7,4% en Píratar fara enn með himinskautum og hafa aldrei mælst með meira fylgi eða 34,1%. Það er meira en samanlagt fylgi stjórnarflokkanna tveggja. 4,3% segjast myndu kjósa aðra flokka.

Tæplega þrjátíu og eitt prósent lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Stuðningurinn hefur ekki verið minni á kjörtímabilinu.

Píratar fengju 24 menn á þing

Yrðu þetta niðurstöður kosninga skiptust þingmenn þannig milli flokka að Píratar fengju 24 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 15, Samfylkingin 8 og Vinstri græn 6 en Framsóknarflokkur og Björt framtíð fengju hvor sína 5 þingmenn. 

Fréttastofa fékk Gallup til að reikna út fylgi við flokka í kjördæmum. Þær upplýsingar eru birtar með þeim fyrirvara að þar sem svörin eru mun færri en í könnuninni á landsvísu eru vikmörkin hærri.

Píratar mælast stærstir í öllum kjördæmum nema norðvesturkjördæmi.

Reykjavíkurkjördæmi suður - Píratar lang stærstir í höfuðborginni

Þar mælast Píratar með 40,3%, Sjálfstæðismenn með 19,2% en Samfylkingin með 15,1%. 9,9% Myndu kjósa Vinstri græn, 6,7% Bjarta framtíð og 4,4% Framsóknarflokkinn. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er um 23%.

Kjördæmakjörnir þingmenn skiptast þannig að Píratar fengju 5, Sjálfstæðismenn 3 en Samfylking og VG 1 kjördæmakjörinn mann hvor.

Reykjavíkurkjördæmi norður - Framsókn með lítið fylgi í höfuðborginni

Þar mælast Píratar með 40,4%, Sjálfstæðismenn með 18,8% en Samfylkingin með 16%. 10,9% myndu kjósa Vinstri græn, 6,2% Bjarta framtíð og 3,8% Framsóknarflokkinn.

Kjördæmakjörnir þingmenn skiptast þannig að Píratar fengju 5, Sjálfstæðisflokkkurinn 2, Samfylkingin 1 og VG 1.

Fylgi Samfylkingarinnar og/eða Pírata þyrfti mjög lítið að breytast til að Píratar misstu sinn 5. kjördæmakjörna mann til Samfylkingarinnar. Píratar fengju ekki jöfnunarsæti í hans stað heldur fengi Framsóknarflokkurinn viðbótarjöfnunarsæti.

Suðvesturkjördæmi - Píratar fá þriðjung fylgis en helming þingmanna

Píratar mælast með 33,8% fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn með 25,4%, Samfylkingin með 12,4% en Björt framtíð með 10,1%. VG mælist með 8,3% en Framsóknarflokkurinn mælist með 6%.

Þingmenn skiptast þannig að Píratar fengju 5 kjördæmakjörna menn, Sjálfstæðisflokkurinn 2, Samfylkingin 1, Björt framtíð 1 og VG 1.

Norðvesturkjördæmi - Veikasta vígi Pírata

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í kjördæminu með 28,8%. Píratar koma næstir með 20,1% og Framsóknarflokkurinn með 19,5%. Samfylkingin mælist með 13,5%, VG 9,9% og Björt framtíð með 4,9%. Þetta er sterkasta vígi ríkisstjórnarflokkanna. Samanlagt fylgi þeirra nálgast helming atkvæða, 48,3%.

Þingmenn skiptust þannig, yrðu þetta niðurstöður kosninga, að Sjálfstæðismenn fengju 2 kjördæmakjörna menn, Píratar 2, Framsóknarflokkurinn 1, Samfylkingin 1 og VG 1.

Norðausturkjördæmi - Samfylkingin fengi ekki kjördæmakjörinn mann

Píratar mælast með 23,4%, nánast jafn mikið fylgi og Sjálfstæðismenn sem mælast með 23,1%. Framsóknarflokkurinn mælist með litlu minna, 20,8%. VG mælist með 14,1%, Björt framtíð með 8% en Samfylkingin á í vök að verjast, mælist með 6,2% í kjördæminu.

Þingmenn skiptast þannig að Píratar fengju 3 kjördæmakjörna menn, Sjálfstæðisflokkurinn 2 og Framsóknarflokkurinn 2. VG fengi 1 og Björt framtíð 1.

Suðurkjördæmi - Píratar stærstir

Píratar mælast með 34,2% en fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 26,1%. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 11,8%, Samfylkingarinnar 8,2%, Vinstri grænna 7,4% og fylgi Bjartrar framtíðar 6%.

Skipting þingmanna yrði þannig að Píratar fengju 4 kjördæmakjörna menn, Sjálfstæðisflokkurinn 3, Framsóknarflokkurinn 1 og Samfylkingin 1.

Framkvæmd könnunarinnar

Könnunin var netkönnun, gerð dagana 30. apríl til 28. maí. 8500 einstaklingar, valdir af handahófi, voru í úrtaki Gallup en svarhlutfallið var 57,2%. Spurt var: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. 10,9% tóku ekki afstöðu milli flokka eða neituðu að svara en 10,8% sögðust skila auðu eða ekki myndu kjósa. 78,4% nefndu flokk. 

Vikmörk á fylgi við flokka á landsvísu eru 0,8-1,5%.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi