Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Píratar draga úr kröfu um stutt kjörtímabil

Mynd með færslu
 Mynd:
Píratar segjast vera tilbúnir til að gera málamiðlun um lengd kjörtímabilsins. Þeir segja að rökin fyrir því séu að þær „víðtæku kerfisbreytingar sem gerð er krafa um gætu tekið lengri tíma en svo að styttra kjörtímabil væri raunhæft“.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum vegna samstarfsviðræðna á milli þeirra, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Stjórnarandstöðuflokkarnir lýstu í morgun yfir vilja til ríkisstjórnarsamstarfs að loknum kosningum fái þeir meirihlutaumboð kjósenda til þess. Flokkarnir hafa fundað undanfarið um mögulegt samstarf flokkanna að kosningum loknum en Píratar boðuðu til fundanna.

Björt framtíð sendi frá tilkynningu nú síðdegis vegna fundarins í morgun. Þar segir að flokkurinn gefi ekki afslátt af prinsippum sínum og sjái enga ástæðu til að stefna að stuttu kjörtímabili. „Verkefni nýrrar stjórnar eru ærin og henni veitir ekkert af tímanum. Björt framtíð hafnar fúski, lausatökum og kæruleysi og mun ekki láta sitt eftir liggja við að efla traust á stjórnmálum og fyrst og fremst vanda sig,” segir í tilkynningu.

Björt framtíð segir að flokkarnir fjórir séu sammála um margt, til að mynda í heilbrigðis- og menntamálum, en minni sátt sé um annað. Þar nefnir flokkurinn fiskveiðistjórnunarkerfið, kerfisbreytingar í landbúnaði og nýja stjórnarskrá.

Píratar segja í sinni tilkynningu að skýr samstaða hafi náðst um mörg mál. Þar nefnir flokkurinn nýja stjórnarskrá á komandi kjörtímabili, endurreisn heilbrigðiskerfisins, aukið gagnsæi og áherslu á menntamál.