Þetta kom fram á stöðufundi vegna kórónuveirufaraldursins í dag.
Sýnatökum hefur fækkað nokkuð síðustu daga og Þórólfur viðurkenndi að óvissa væri um hvenær væri von á nýjum pinnum.
Misvísandi skilaboð „bagaleg“ fyrir veirufræðideildina
Þórólfur upplýsti að á föstudag hefðu verið til 2.000 pinnar og von hefði verið á 5.000 þúsund pinnum í vikunni. Sú sending hefði hins vegar verið skorin niður um þrjú þúsund pinna. „Og það er bagalegt fyrir veirufræðideildina að fá svona misvísandi skilaboð.“ Lofað hefði verið nýjum sýnatökupinnum í þessari viku en það gæti breyst. Ástæðan væri auðvitað að skortur væri á þessum pinnum um allan heim og það gæti orðið til þess að dregið yrði enn frekar úr sýnatökum hér á landi.
Árangur af aðgerðum stjórnvalda
Sóttvarnarlæknir benti jafnframt á að nýgreindum smitum hefði fjölgað minnst á Íslandi og vitnaði meðal annars til útreikninga Pawels Bartoszek, forseta borgarstjórnar, á deiglan.is. Þær aðgerðir sem íslensk yfirvöld hefðu gripið til, að greina smit, einangra sýkta og setja fólk í sóttkví hefðu skilað árangri. Þá væri það jákvætt að enginn úr hinum svokallaða viðkvæma hópi hefði sýkst.
Mesti fjöldi sýktra frá upphafi faraldursins
Þórólfur sagði fjölda sýktra síðasta sólarhringinn vera þann mesta síðan faraldurinn hófst. Hann væri í uppsveiflu en í svona fámennu samfélagið mætti búast við því tölurnar sveifluðust á milli daga. Þó væru vísbendingar um að samfélagssmit væri að aukast. Samkvæmt síðustu tölum eru óþekkt smit nú í fyrsta skipti orðin fleiri en þeir sem hafa smitast erlendis
Þórólfur sagði að faraldurinn myndi ná hámarki um miðjan apríl og næstu dagar myndu skera úr um hvort versta spáin myndi raungerast eða sú besta. „Allur okkar undirbúningur hefur miðast við verstu spána.“
Stöðum getur verið lokað fyrirvaralaust
Á miðnætti annað kvöld taka gildi hertar reglur um samkomur og þótt ekki hafa verið farið ítarlega yfir þær á fundinum kom þó berlega í ljós að þær eiga eftir að breyta nokkru. Þórólfur vildi ekki fara yfir það hvað kom fram í minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra en sagði þó að þar hefði ekkert verið talað um útgöngubann.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði að mögulega yrði fólk beðið um að haga innkaupum sínum þannig að aðeins einn úr hverri fjölskyldu sinnti þeim og væri jafnvel beðinn um að vera með innkaupalista tilbúinn. Hann sagði áfram unnið eftir því að treysta fólki til að fara eftir tilmælum stjórnvalda en áréttaði að staðir sem færu ekki eftir settum reglum gæti verið lokað fyrirvaralaust.
Slökkviliðsmenn í sóttkví
Hann staðfesti jafnframt að heil stöð hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins væri komin í sóttkví til viðbótar við 16 slökkviliðsmenn. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins hefði þó fullvissað hann um að þetta hefði engin áhrif á sjúkraflutninga þar sem búið væri að kalla út menn á aukavakt.
Engin pólitískur þrýstingur
Bæði Víðir og Þórólfur sögðu að ekki hefði örlað á því að þeir hefðu verið undir einhverjum pólitískum þrýstingi. Þórólfur hrósaði heilbrigðisráðherra fyrir samstarfið og Víðir sagði að þau hefðu hitt þingmenn úr bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu og farið yfir stöðuna með þeim. Allir væru sammála um að leyfa þeim að vinna sína vinnu. „Og við erum mjög stolt af því að vera treyst fyrir þessu verkefni“
Hann hvatt jafnframt landsmenn sem væru eitthvað slappir, með einhvern hausverk, kvef eða annað slíkt, að halda sig heima. Og skoraði á fólk að hafa veirufría klukkustund milli átta og níu í kvöld. Þar ætti að tala um eitthvað annað en COVID-19 eða kórónuveiruna.