Persónuvernd barna til umræðu

18.10.2019 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Norrænir sérfræðingar í persónuvernd fjalla á ráðstefnu eftir hádegi um hvort börn njóti nægrar persónuverndar í stafrænum heimi. Rædd verða áhrif vinnslu persónuupplýsinga á vettvangi stjórnsýslu, skóla og dómstóla.

 

Björg Thorarensen fundarstjóri, prófessor og stjórnarformaður Persónuverndar segir Norðurlöndin komin lengst þjóða í stafrænni stjórnsýslu:

„Við ætlum að fara svolítið djúpt ofan í það hvaða leiðir er hægt að fara til þess að stemma stigu við því að vinnsla persónuupplýsinga verði úr hófi í þessum stafræna heimi og hvernig megi tryggja öryggi í vinnslu persónuuplýsinga og þá sérstaklega þegar börn eru annars vegar,“ segir Björg. 

Ráðstefnan er á vegum Lagastofnunar, Persónuverndar, dómsmálaráðuneytisins, dómstólasýslunnar og Norrænu ráðherranefndarinnar en sú síðastnefnda styrkir ráðstefnuna. Þá verður líka fjallað um vinnslu persónuupplýsinga um börn inn á heimilum og foreldra sem til dæmis birta myndir af börnum sínum á netinu en það eru persónuupplýsingar barnanna. Björg segir að í skólakerfinu á Norðurlöndunum sé safnað miklum persónuupplýsingum um börn og jafnvel í meira mæli en fólk almennt átti sig á: 

„Og það þarf að fara yfir ýmis vandamál sem tengjast því hversu lengi þessi gögn eru varðveitt, hverjir hafa aðgang að þeim og þarna er oft um mjög viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, sem að menn þurfa þá að taka afstöðu til hvernig þeir vilja hafa öryggi slíka upplýsinga. Og það held ég að hafi verið álitamál uppi um það á öllum Norðurlöndum og verða meðal annars rædd í dag.“

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi