Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pence og Katrín funda á miðvikudagskvöld

02.09.2019 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ætla að hittast á miðvikudagskvöld í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli. Óljóst hefur verið hvort af fundi þeirra yrði. Bandaríski varaforsetinn kemur til landsins á miðvikudag og hittir meðal annars forseta Íslands og utanríkisráðherra.

Í fyrstu var talið að Katrín og Pence myndu ekki hittast þar sem Katrín á að  flytja aðalræðuna á þingi Norræna verkalýðssambandsins í Svíþjóð. Sú ákvörðun vakti heimsathygli, ekki síst eftir að sló í brýnu milli Dana og Bandaríkjamanna vegna hugmynda Bandaríkjaforseta um að kaupa Grænland.

Jeffrey Gunter, sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, og Katrín átti síðan fund í stjórnarráðinu þar sem þau ræddu meðal annars þann möguleika að Pence myndi framlengja heimsókn sína hingað til að þau rætt saman. Pence ætlar meðal annars að ræða tilraunir Rússa og Kínverja til að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. 

Katrín sagði í Silfrinu í gærmorgun að enn væri óvíst hvort af fundi þeirra yrði og gaf lítið fyrir þá gagnrýni að hún vildi ekki hitta bandaríska varaforsetann. „„Þess vegna kalla ég þetta nú hálfgert uppnám út af litlum sökum. Hingað kom nú Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og við áttum góðan fund fyrr á þessu ári. Þar sem ég einmitt fór yfir málefni norðurslóða, loftslagsmál sérstaklega og sérstakt hugðarefni mitt, kjarnorkuafvopnun, sem ég hef raunar líka rætt við Donald Trump sjálfan á NATO fundi hér í fyrra þannig ég hef aldrei nálgast alþjóðleg samskipti þannig að maður eigi eingöngu að tala við þá sem eru manni sammála enda myndi ég nú ekki tala við marga þá.“  

Mynd: Silfrið / RÚV