Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Pence kemur til Íslands 3.september

15.08.2019 - 09:15
Indiana Gov. Mike Pence introduces Republican presidential candidate Donald Trump at a rally in Westfield, Ind., Tuesday, July 12, 2016. (AP Photo/Michael Conroy)
 Mynd: AP
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur til Íslands þann 3. september. Í heimsókninni mun varaforsetinn leggja áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands á Norðurslóðum, varnir Nató gegn umsvifum Rússa á svæðinu og möguleg viðskiptatækifæri milli Bandaríkjanna og Íslands. Samtökin '78 hafa sagt heimsókn Pence vera hreina og klára vanvirðingu við samfélag hinsegin fólks á Íslandi.

Pence er annar háttsetti bandaríski ráðamaðurinn sem heimsækir Ísland á skömmum tíma.  Í febrúar kom Mike Pompeo, utanríkisráðherra landsins, í stutta heimsókn. Hann var þá fyrsti bandaríski utanríkisráðherrann í ellefu ár til að koma hingað. 

Á vef Hvíta hússins kemur fram að þegar heimsókninni á Íslandi lýkur haldi Pence í tveggja daga heimsókn til Bretlands og þaðan fer hann til Írlands í boði Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands.

Pence er umdeildur. Hann hefur barist gegn réttindum hinsegin fólks og er yfirlýstur andstæðingur þungunarrofs.  Formaður Samtakanna ´78 sagði í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að Pence væri „illgjörðarmaður“ hinsegin fólks og ætla samtökin að mótmæla komu hans. „„Með nákvæmlega hvaða hætti er ekki ákveðið. En við munum mótmæla og láta í okkur heyra.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV