Pence „hefur rosalega vondar skoðanir“

01.09.2019 - 13:43
Mynd: Rúv / Silfrið
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er rosalega óþægilegur maður með rosalega vondar skoðanir, sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata í Silfrinu. Það er erfitt að taka á móti honum með pompi og prakt þegar það sem hann talar fyrir er í andstöðu við þau gildi sem við teljum okkur hafa, sagði hún.

Mikilvægt væri að fólk láti í sér heyra og mótmæli viðhorfum Pence og vegferð Bandaríkjanna. 

Fólk verði að tala saman

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, sagði að það verði aldrei friður í þessari veröld nema að fólk tali saman. Það skipti öllu máli að tala saman, alveg sama þótt fólk hafi aðrar skoðanir. Það eigi líka við um Pence. Við eigum að tala við hann og sýna honum fulla kurteisi, vilji hann koma hingað. Það sé partur af almennum mannasiðum og eðlilegum samskiptum milli fólks. Þórhildur Sunna sagðist ekki tala gegn því að rætt verði við Pence. 

Mynd: Rúv / Silfrið

Erindi Pence óljóst

Þórhildur Sunna sagðist vonast til þess að það kæmi skýrt fram hvað Pence sé að vilja hingað til lands. Ráðherrar hafi ekki talað skýrt um erindi hans. Ríkisstjórnin, og sér í lagi utanríkisráðherra, þyrftu að ræða eðli þessara heimsókna hreint út. Hér á landi hefði verið sagt að það ætti að ræða viðskiptasamninga við Pence. Hins vegar hefðu þær fréttir komið að vestan að það stæði til að ræða varnarmál.

Styrmir sagðist sammála Þórhildi um að það þyrfti að ræða erindi Pence opinskátt. Þá fannst þeim báðum ólíklegt að Pence væri á leið til landsins til að ræða viðskiptasamninga. Styrmir sagði að varaforsetinn væri ekki að koma hingað til lands af kurteisisástæðum, heldur ætti hann erindi við stjórnvöld. Þá væri spurningin hvað það erindi væri. 

Ætlar að ræða um varnarmál á Norðurslóðum

Greint var frá því í síðustu viku að Pence ætlaði sér að ræða við íslenska ráðamenn um tilraunir Kínverja og Rússa til að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Þetta hafði Reuters fréttastofan eftir embættismanni í Hvíta húsinu. Utanríkisráðuneytið sagði fréttastofu að ekki væri ólíklegt að öryggismál á Norðurslóðum myndu bera á góma. Hins vegar hafi ekki verið lögð lokahönd á dagskránna og því liggi ekki fyrir hvað verði rætt á fundum með Pence. 

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur og Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, voru gestir Egils Helgasonar í Silfrinu í dag, auk Þórhildar Sunnu og Styrmis. Þau ræddu meðal annars um komu varaforseta Bandaríkjanna til landsins, vaxandi spennu á norðurslóðum, norræna samvinnu og varnarmál. 

Mynd: Rúv / Silfrið
Hér má sjá viðtalið í heild sinni.
Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi