PCC þarf 66 þúsund tonn af kolum árlega

04.01.2017 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdir við byggingu kísilvers PCC á Bakka ganga samkvæmt áætlun, en gert er ráð fyrir því að framleiðsla á kísilmálmi hefjist í árslok. Sú bygging í verksmiðjunni sem verður einna mest áberandi og búið er að reisa að miklu leyti er hráefnisgeymsla, sem verður tæpir 11 þúsund fermetrar að stærð. Þar verða geymd kol og trjákurl, en útlit er fyrir að allt slíkt hráefni verði flutt sérstaklega inn til landsins, beint til Húsavíkur.

Kolin verða brennd til þess að búa til kísilmálminn, en Skipulagsstofnun sagði í umsögn sinni um verksmiðjuna árið 2013 að það sé augljóst að útblástur mengunarefna frá verksmiðjunni muni rýra loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar og að áhrif þess verði nokkuð neikvæð. Styrkur þeirra efna sem losni út í andrúmsloftið verði þó undir viðmiðum. 

Þurfa jafnmikið af kolum og verður til af málmi

Þetta kemur fram í umhverfismati kísilvers PCC frá 2013 en þar segir að fyrir hvert tonn af kísilmálmi þurf um 400 kíló af kolefnisgjafa, svo sem kolum, viðarkolum, koks, viðar eða kolaskauta. Þar kemur einnig fram að innihald kolefnis í kolum sé um 55% en að hámarki 20% í kurluðum við. Því þarf um það bil sama magn af kolum á hverju ári og verksmiðjan framleiðir af kísilmálmi, um 66 þúsund tonn, samkvæmt upplýsingum frá PCC á Íslandi. Kolunum og viðarkurli er svo blandað saman og því þarf um 45 þúsund tonn af við á ári, sem gert er ráð fyrir að verði flutt inn til landsins.

Í kísilveri United Silicon í Helguvík er kísilmálmur framleiddur með sömu aðferð, en þar hefur gengið frekar illa að koma svokölluðum ljósbogaofni af stað en í honum er málmurinn framleiddur og viðurinn og kolin brennd.

 

Mynd: RÚV / RÚV
Myndir frá kísilveri United Silicon í Helguvík.

Kolin ekki brennd fyrir orku

Ástæðan fyrir því að kol og viði er brennt er þó ekki til þess að búa til orku, því ofninn sjálfur er keyrður áfram með rafmagni. Samkvæmt upplýsingum frá PCC á Íslandi er ástæðan sú að til þess að framleiða kísilmálm þarf að aðskilja sílíkon frá súrefni í ofninum. Það gerist aðeins með háum hita en til að koma í veg fyrir að súrefnið bindist því aftur eru kolefnin notuð, til að mynda koldíoxíð. Engin önnur leið sé betri til að framleiða kísilmálm á þessari stærðargráðu og mun umhverfisvænna sé að framleiða hana hér heldur en til dæmis í Kína, þar sem öll orka er framleidd með kolum. 

Þá er það til skoðunar að timbrið sem notað verður til framleiðslunnar verði íslenskt, en slíkt hefur þó ekki verið ákveðið. Í færslu Skógræktarinnar frá því í janúar 2014 kemur fram að til að hægt verði að framleiða þennan við þurfi 15-50 þúsund hektara land, en það sé þó ekki raunhæft að ætla að íslenskir skógir anni eftirspurn þessarar verksmiðju í nálægri framtíð. Því er það afar líklegt að timbrið verði flutt inn.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi