Paunkholm, Systir og Bistro Boy með nýtt

Mynd: Tortured Artists / Out Of Place

Paunkholm, Systir og Bistro Boy með nýtt

26.03.2020 - 17:14

Höfundar

Við þeysumst um víðan völl íslenskrar útgáfu í Undiröldunni að venju. Það sem er í boði þennan fimmtudag er indírokk með jákvæðum boðskap, ný döbbreggí-hljómsveit, ballöður frá systrum og sveimhugum, auk endurhljóðblöndunar af nýlegu lagi og tilraunakenndrar raftónlistar frá frumkvöðlum í bransanum.

Paunkholm - Birtir til í svartnætti

Birtir til í svartnætti er annað lagið af tilvonandi annarri sólóplötu Franz Gunnarssonar undir nafninu Paunkholm en sú áætluð í útgáfu 2020. Textinn fjallar um þunglyndi og kvíða, að það sé dauðans alvara að díla við geðsjúkdóma.


Omnipus - Kankin

Omnipus er sækadelískt döbbband sem var að gefa út þröngskífuna Omnipus Meets the World á dögunum. Bandið er skipað þeim Arnari Grétarssyni, Eyvindi Þorsteinssyni, Gauta Bergmann Víðissyni í fjarsambandi við Ara Frank Inguson.


Systur - Remember

Tónlistarkonuna Láru Rúnarsdóttur þarf ekki að kynna fyrir hlustendum en að þessu sinni er hún mætt ásamt systur sinni Margréti en saman skipa þær hljómsveitina Systur sem hefur sent frá sér ballöðuna Remember.


Sveimhugar - Miklu betra

Hljómsveitin Sveimhugar hefur sent frá sér lagið Miklu betra til að minna sig á að vera í núinu. Sveitin er skipuð söngvaranum Birgi Jakob Hansen, Guðmundi Ingi Halldórsson á bassa, Sveini Bjarnar Faaberg á rafmagnsgítar og Hilmari Gylfa Guðjónssyni trommara.


Teitur [Bistro Boy Remix] - Hvíti dauði

Tónlistarmaðurinn Frosti Jónsson hefur sent frá sér vel heppnaða og taktfasta endurhljóðblöndun á lagi Teits Magnússonar Hvíti dauði undir nafninu Bistro Boy. Lagið er samstarf Teits og upptökustjórans og tónlistarmannsins Gunnars Jónssonar Collider sem kom út fyrir skömmu.


GusGus - Unfolder

GusGus gaf út seinni helming endurhljóðblöndunar plötu sinnar Remixes are more flexible pt 2 á föstudaginn. Þar er að finna fjölbreyttan kokteil fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar bæði klúbbatónlist og svo tilraunakennda spretti eins og lagið Unfolder.