Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pattstaða við Ýmishúsið

01.06.2016 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Pattstaða hefur myndast við Ýmishúsið að Skógarhlið 20, þar sem Menningarsetur múslima er til húsa. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að Menningarsetrið yrði borið út úr húsinu. Sýslumaður hefur fengið aðgang að húsinu.

Kallað var til lögreglu og mættu fjórir lögreglumenn á staðinn ásamt lásasmið. Lásasmiðnum var neitað um leyfi til að skipta um lás á húsinu. Allt hefur gengið rólega fyrir sig og engu ofbeldi hefur verið beitt. 

Talsmaður Menningarsetursins hefur rætt við lögreglu og fulltrúa sýslumanns um frest á útburði. Fulltrúar sýslumanns hafa fengið að fara inn til að skrá eignir Menningarsetursins. Enn er óljóst hvort rýming fari fram í dag eða hvort húsinu verði læst eftir skráningu eigna. 

Ahmad Seddeeq, imam Menningarseturs múslima hefur sagt að gangi fresturinn ekki í gegn, muni þeir yfirgefa húsnæðið.

Úrskurður héraðsdóms byggir á því að ekki sé leigusamningur í gildi um húsnæðið. Stofnun múslima á og rekur Menningarsetrið. Árið 2014 voru breytingar í stjórn stofunarinnar.

Tveir leigusamningar

Deilt er um hvaða leigusamningur er í gildi. Húsaleigusamningur fyrir Ýmishúsið var gerður 20. desember 2012 en samningur dagsettur 21. desember 2012 fellir þann fyrri úr gildi. Stofnun múslima segir að yngri leigusamningurinn sé falsaður og því gildi samningurinn frá 20. desember 2012. Telja þeir líklegt að fyrrverandi framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Karim Askari,  hafi dagsett yngri samninginn aftur í tímann, eftir að honum var vikið úr starfi árið 2014.

Ekki þótti sannað fyrir héraðsdómi að yngri samningurinn hafi verið dagsettur aftur í tímann eða að undirskriftir hafi verið falsaðar. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Katrín Lilja Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV