Partíið í Bronx sem valtaði yfir heiminn

Mynd með færslu
 Mynd: Public Domain

Partíið í Bronx sem valtaði yfir heiminn

25.09.2019 - 10:46

Höfundar

Ráðandi menningarafl og vinsælasta tónlistarstefna heims undanfarna tvo áratugi skaut rótum í fátækasta hluta New York-borgar fyrir næstum hálfri öld. Hipphoppið varð til í Bronx á öndverðum áttunda áratugnum og var fyrsta tónlistarstefnan sem var alfarið sköpuð af plötusnúðum.

Í fjórða og síðasta þætti af Snúðunum sem breyttu heiminum fjallar Ívar Pétur Kjartansson um upphaf og uppgang hipphopp-menningarinnar og hvernig plötusnúðar, ekki tónlistarmenn og hljóðfæraleikarar í hefðbundnum skilningi, voru þar í aðalhlutverkum.

Í upphafi áttunda áratugarins var gríðarleg fátækt í Bronx-hverfinu og fólk þurfti á partíum að halda til að flýja eymdina. Það safnaðist saman á leikvöllum eða í yfirgefnum húsnæðum, stálu rafmagni úr ljósastaurum, og plötusnúðar léku hrærigraut af fönki, sálartónlist og diskói fyrir dansi.

Ílengdi góðu kaflana

Átján ára plötusnúður og innflytjandi frá Jamaíka sem kallaði sig Kool Herc tók eftir því að að fólk dansaði meira við vissa kafla í lögunum – einkum stutta sönglausa brúarkafla þar sem mikið var um slagverk – sem hann kallaði „break“. Í partíi sem haldið var 11. ágúst og hefur í seinni tíð verið talað um sem upphafspunkt hipphopp-menningarinnar reyndi Kool Herc nýja tækni sem hann hafði verið að þróa í fyrsta sinn opinberlega. Til að lengja dansvænu kaflana tók Herc upp á því að vera með tvær eins plötur, hvora á sínum plötuspilaranum, og þegar „break“-ið var búið á einum spilaranum setti hann það á á hinni plötunni – og meðan það spilaðist þar spólaði hann hina plötuna til baka og skipti svo aftur yfir. Þannig gat hann lengt góðu kaflana út í hið óendanlega ef sá gállinn var á honum.

Mynd með færslu
 Mynd: Richard Alexander Caraballo
Kool Herc flutti ungur frá Jamaíku til Bronx í New York og varð einn af frumkvöðlum hipphoppsins.

Kool Herc sló í gegn með frammistöðunni og partí af þessum toga breiddust fljótt út í Bronx. Lagið Apache með The Incredible Bongo Band með sínu langa trommu-breaki varð einkennislag Kool Herc og hefur verið endurunnið ótal sinnum í seinni tíma hipphopp- og danstónlist; það varð eins konar „anthem“ upphafsára hipphoppsins. Joseph Saddler var ungur aðdáandi Kool Herc sem um miðjan áttunda áratuginn byrjaði að plötusnúðast undir listamannsnafninu Grandmaster Flash. Hann lærði rafvirkjun og stúderaði af ástríðu tæknilegri hliðar plötusnúðamennskunnar, nálar, pikköppa, mixera og heyrnartól. Hann tók break-plötusnúðun Kool Herc enn lengra og fullmótaði handverkið, svo varla mátti greina þegar hann skipti milli takta á tveimur plötum. Þar lagði hann grunninn að hipphoppi og mörgum öðrum stefnum sem byggja á því að að taka búta úr annarri tónlist og lúppa aftur og aftur.

Fljótlega voru kynntir til sögunnar í þessum partíum í Bronx svokallaðir veislustjórar (MC's, Master of Ceremonies) hverra hlutverk var að kynna plötusnúðana og koma fólki til að dansa. Í byrjun voru það einfaldir „eru ekki allir í stuði?“ textar með smá rími en þróaðist með tímanum yfir í rapp eins og við þekkjum það í dag. Árið 1976 var Grandmaster Flash farinn að fylla 3000 manna tónleikasali og í för með honum voru veislustjórarnir Melle Mel and The Furious Five, sem var líklega fyrsta rappgrúppan. Þessari partímenningu fylgdi svo break-dansinn sem tekur nafn sitt frá áðurnefndum break-um plötsnúðanna og graffiti-listin; yfirleitt ólögleg verk máluð með spreybrúsum á útiveggi og vagna neðanjarðarlesta.

Mynd með færslu
 Mynd: Victor Frankowski
Grandmaster Flash er enn í fullu fjöri. Hér er kemur hann fram á plötusnúðahátíð James Lavelle árið 2014.

Þriðji plötusnúðurinn frá Bronx sem er talinn hafa haft afgerandi á þróun á hipphopp-menninguna var Afrika Bambaataa. Hann var í glæpagengi en hætti öllum afskiptum af slíku um miðjan áttunda áratuginn og stofnaði félagsskapinn Zulu Nation. Þar var ungt fólk í Bronx hvatt til að hafna ofbeldi og gengjaaðild en í stað þess beina kröftum sínum í farveg hipphoppmenningarinnar sem þá var að verða til; breikdans, graffítílistar og tónlistarsköpunar. Sem plötusnúður var Afrika Bambaata svo þekktur fyrir einstaklega fjölbreytt tónlistarval, að spila allt frá James Brown yfir í Aerosmith og Kraftwerk.

Eitt af fyrstu rapplögunum sem voru gefin út á plötu, frá 1979.

En öll þessi mikla ólga og menningarsuða í Bronx var að mestu leyti staðbundin í partíum þar – og lítið hafði verið gert í því að skjalfesta hana. Það var helst að ólöglegar bootleg-útgáfur af dj-settum partíanna væru seldar á götuhornum og gengju manna í millum. Sögum ber ekki saman um hvað hafi verið fyrsta rapplagið til að koma út á plötu en Superrappin með Grandmaster Flash og the Furious Five kom út einhvern tímann 1979 og á svipuðum tíma komu fyrstu smáskífurnar með Kurtis Blow, Sweet Tee, Spoonie G og fleirum fyrstu-kynslóðar röppurum. En fyrsta lagið til að ná áheyrn utan Bronx og New York-borgar var hins vegar Rappers Delight. Það var með rappgenginu Sugarhill Gang sem var í raun sett saman af diskópródúsantinum og söngkonunni Sylviu Robinson. Hún hafði fylgst með því sem var að gerast í Bronx-senunni og veðjaði réttilega á að vinsældir þess gætu náð víðar.

Heimsyfirráð handan við hornið

Rappers Delight kom út 12. ágúst 1979 og varð fyrsta rapplagið til að komast inn á topp 40 Bilboard-listans, í 36. sæti, en það rataði í 4. sæti undirlistans fyrir sálartónlist. Eftir þetta gerðust hlutirnir hratt; Rapture með Blondie varð fyrsta lagið með rappi í til að komast á topp Billboard-listans árið 1981 auk þess að neim-droppa Grandmaster Flash, The Message með áðurnefndum Flash og hinum fimm hamslausu varð fyrsta pólitíska rapplagið 1982, stutt sena úr kvikmyndinni Flashdance bjó til breikdans-æði um heim allan 1983, og önnur kynslóð rappara með Run-DMC, LL Cool J, KRS-One og Eric B og Rakim í broddi fylkingar var rétt handan við hornið.

Fyrsta stóra popplagið þar sem mátti heyra rapp. Debbie Harry minnist á frumkvöðlana Grandmaster Flash og Fab Five Freddy með nafni, auk þess sem myndbandið var virðingarvottur við hopphopp-senuna. Þar má líkja sjá ungan Jean-Michel Basquiat.

Rappið hélt svo áfram að blómstra á tíunda áratugnum þegar listamenn eins og Wu Tang Clan, Snoop Doggy Dogg og Will Smith urðu meðal vinsælustu tónlistarmanna heims og frá því um aldamótin hefur hipphopp verið ráðandi menningarafl í meginstraumnum. Mógúlar eins og Dr. Dre og Jay Z eru með valdamestu mönnum skemmtanaiðnaðarins og Kanye West hefur sett ný viðmið sem allt í senn; einn mikilvægasti tónlistarmaðurinn, leiðandi í tískustraumum, hönnun, hugmyndafræði og samfélagsmiðlanærveru. Rappið sem listform blómstrar í óteljandi löndum í öllum heimshornum og útgáfa þess veltir skrilljörðum dollara og annarra gjaldmiðla árlega. En allt hófst þetta í Bronx fyrir hartnær hálfri öld með tveimur plötuspilurum og hljóðnema; einum plötusnúð sem leitaði leiða / til að fá fólkið sitt til að dansa meira.

Í fjórða og síðasta þætti af Snúðunum sem breyttu heiminum fjallar Ívar Pétur Kjartansson um upphaf og uppgang hipphopp-menningarinnar og hvernig plötusnúður voru þar í aðalhlutverkum. Lagalisti þáttarins er hér fyrir neðan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kvöldið sem diskóið var sprengt í loft upp

Popptónlist

Upphaf diskósins í New York

Tónlist

„Djamm er ekki bara djamm“

Tækni og vísindi

Vasadiskóið fertugt og stenst tímans tönn