Pari á perunni vísað út í Borgarleikhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Pari á perunni vísað út í Borgarleikhúsinu

26.05.2019 - 08:45

Höfundar

Dauðadrukknu pari á miðjum aldri var vísað út af sýningu á farsanum „Sýningin sem klikkar" í Borgarleikhúsinu í gærkvöld. Parið sat utarlega á 14. bekk og varð gestum í næstu sætum fljótlega ljóst að ekki var allt með felldu.

Héldu að parið væri hluti af sýningunni

Konan hélt á bjórglasi í óstöðugri hendi og hellti yfir sessunaut sinn á meðan karlinn sofnaði svefni hinna réttlátu við hliðina á henni. Þar sem allt klikkar í farsanum sem getur klikkað, þá datt nálægum gestum í hug að parið væri hluti af verkinu, aðhöfðust ekki frekar og brostu út í annað. Gamanið fór hins vegar að kárna þegar karlinn rumskaði og kastaði upp. Þá fór að þyngjast brúnin á nærstöddum, en var samt allt kyrrt um hríð. Leikarar urðu einskis varir og héldu sínu striki í miklum ærslaleik og var dátt hlegið. Gesti sem sat fyrir aftan parið var samt nóg boðið þegar parið fór að sýna tilburði til ástaratlota. Hann náði í húsverði, sem komu án tafar og vísuðu parinu út. Gekk það átakalaust og án vandræða, öfugt við sýninguna sem lauk um klukkan 22 við mikinn fögnuð salarins.