Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Panamaskjölin stuðla að réttari skattskilum

05.04.2018 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö ár eru síðan að ljóstrað var upp um geysilegar eignir fólks og fyrirtækja í skattaskjólum í gögnum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama. Enginn vafi er á varnaðaráhrifum lekans til lengri tíma, segir skattrannsóknarstjóri. Undanskotin í skattaskjólsmálum sem rannsókn er lokið á hjá skattrannsóknarstjóra nema 15 milljörðum króna.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úr Kastljósþætti sjónvarpsins 3. apríl 2016

Þann 3. apríl 2016 var sagt frá Panamaskjölunum í Kastljósþætti sjónvarpsins. Panamaskjölin eru talin vera stærsti gagnaleki sögunnar. Kastljós var unnið í samstarfi við Reykjavík Media, Süddeutsche Zeitung og Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna. Lekinn varð til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra. 800 aflandsfélög sem tengjast 600 Íslendingum komu fram í skjölunum. 

„Landslagið undanfarin ár hefur svolítið breyst það er auðvitað bæði með þessum lekum sem hafa birst í fjölmiðlum,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. 

Embætti skattrannsóknarstjóra hafði árið áður í fyrsta sinn keypt skattaskjólsgögn og var því þegar farið að vinna úr upplýsingum um Íslendinga. Auk Panamaskjalanna bættust embættinu við gögn sem yfirvöld í öðrum löndum fengu. Og íslensk stjórnvöld hafa notið góðs af samstarfi við þau. Undanfarin ár hafa verið undirlögð af vinnu úr gögnunum: 

„Þá held ég að öll þessi vinna hafi verið ja bæði holl fyrir skattayfirvöld sjálf að skyggnast svona betur inn í þennan heim heldur en að áður hafði verið gert og auk þess er ég ekki í nokkrum vafa um það að þetta hafi skapað varnaðaráhrif svona til lengri tíma litið,“ segir Bryndís. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Rannsókn er lokið í 90 málum af 130 hjá skattrannsóknarstjóra. Þar af hafa 80 málið verið send í refsimeðferð; 60 til héraðssaksóknara og 20 til yfirskattanefndar. Héraðssaksóknari þurfti að fella niður mörg málanna vegna fordæmis í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessoar og Tryggva Jónssonar. Skattsvikin eða undandreginn skattstofn í þessum 90 málum nema nokkrum tugum milljóna í flestum málanna og í einhverjum tilvikum hundruðum. 

„Samanlagt eru samkvæmt niðurstöðum rannsóknnanna skattstofnar undandregnir um 15 milljarðar.“

Bryndís segist ekki geta spáð um hve mikið af skatttekjum af milljörðunum 15 eigi eftir að skila sér í ríkissjóð. 

Lögfræðistofan Mossack Fonseca í Panama þaðan sem 11 milljónum skjala var lekið hætti starfsemi nú um mánaðamótin, tveimur árum eftir lekann. Fjórtán mál eru enn í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra og von er á fleirum. Því er yfirferð og rannsókn á skattaskjólsgögnum ekki lokið:  

„Ég geri nú ekki ráð fyrir öðru en næstu ár verði einhver mál í gangi sem að tengjast Panamagögnunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri