Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Páll Magnússon nýr ráðuneytisstjóri

01.11.2019 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Páll Magnússon hefur verið skipaður í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til fimm ára. Þrettán sóttu um starfið og mat hæfisnefnd fjóra þeirra mjög hæfa til þess að gegna því. Var það svo mat Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að Páll „væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu næstu fimm árin og leiða það umbótastarf sem er í farvatninu.“

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að Páll hafi fjölþætta menntun og reynslu af stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera. Hann hafi meðal annars starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og varabæjarfulltrúi og -þingmaður í Kópavogsbæ og sem aðstoðarmaður ráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Þá sat hann í stjórn Landsvirkjunar og var varaformaður útvarpsráðs, og síðar stjórnar RÚV.

Í tilkynningunni segir að Páll hafi talsvert sinnt málefnum barna, meðal annars með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Kópavogsbæ og setu í stjórn Vímulausrar æsku, Umhyggju, félags langveikra barna, og Sjónarhóls ráðgjafarmiðstöðvar.

 

Katrín Ásmundsdóttir
dagskrárgerðarmaður