Óvíst að loftslagsbreytingar valdi óveðri

15.02.2020 - 11:00
Mynd með færslu
Skotar hyggjast virkja sjávarföll og sjávarstrauma til raforkuframleiðslu. Mynd: EPA - TT
Veðrið hefur verið óvenju slæmt í vetur og mætti ætla að fjöldi djúpra óveðurslægða tengdist þeim öfgum í veðri sem rekja má til loftslagsbreytinga. Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé hægt að fullyrða það. Vitað sé að hitabylgjur, þurrkur, skógareldar og slæmir fellibyljir tengist loftslagsbreytingum.

Einn versti janúarmánuður 

„Þær öfgar sem við sjáum núna sem eru tvímælalaust umtalsverðar og þetta er einn versti janúarmánuður síðan við fórum að mæla með sjálfvirkum mælum en tilfellið er eftir sem áður að það er ekki hægt að fullyrða að þetta séu áhrif loftslagsbreytinga. Þetta er mjög vont veður, það er óvenju vont veður, en það er ekki hægt að fullyrða að nákvæmlega svona breytingar, svona veður verði endilega tíðari í heimi sem fer hlýnandi einfaldlega af því það er svo margt sem breytist. Þeir hlutir sem knýja svona veður, sem er hitamunur milli norðurs og suðurs, hann annað hvort breytist ekki neitt eða hreinlega minnkar.

En hvers vegna erum við að upplifa svona slæman janúar ef þetta eru ekki beinlínis loftslagsbreytingar?

„Veðurlag á Íslandi er mjög sveiflukennt og við vitum það að stormatíðni, tölur um stormatíðni sýna ákveðinn breytileika milli áratuga. Það koma áratugir þegar er mjög mikil stormatíðni og svo kemur næsti áratugur án jafn hárrar tíðni og svo eykst þetta aftur og þetta eru svona sveiflur sem gróft séð eru svona tíu til fimmtán ár.“   

Hitabylgjur, þurrkar og skógareldar 

Fjölmargar breytingar í veðri hafa orðið í heiminum sem má beinlínis rekja til loftslagsbreytinga, sérstaklega hlýnunar.

„Hitabylgjur eru náttúrlega augljósa dæmið. Þurrkar víða eru annað dæmi. Síðan eru svona afleiddir hlutir eins og skógareldar sem geta orðið algengari vegna þurrka. Það er líka líklegt að tíðni slæmra fellibylja fari upp, aukist sem sé. Tíðni fellibylja þarf ekki að aukast en hlutfall þeirra fellibylja sem ná að verða það sem við köllum fimmta stig gæti hækkað.  Svona breytingar eru menn að sjá að einhverju marki. Það er nú umdeilt hversu marktækar þær breytingar eru en þær eru alla vega orðnar nógu  augljósar til þess að stefnumótendur þurfa að hafa þær  í huga við alls kyns ákvarðanir, þ.e.a.s menn þurfa að búa sig undir þetta þó svo áhrifin séu ekki öll komin fram. 

Ekki eru neinar beinar vísbendingar um að meira verði um vond vetrarveður vegna loftslagsbreytinga.

Brautir lægða á Atlantshafi færast norðar

Það eru ákveðnar vísbendingar um að þegar dregur úr hitanum milli norðurs og suðurs að þá ætti að sljákka í þessum veðrum og þá fáum við í staðinn veður sem gangi svolítið hægar yfir. Það eru ein áhrif sem við gætum séð. Annað sem er mjög mikið talað um er að brautir lægða á Atlantshafi færist norðar þ.e.a.s lægðir sem myndu fara frá vestri, frá Bandaríkjunum til Bretlands beint, myndu í staðinn fara aðeins norðar og þá jafnvel koma upp að Íslandsströndum og fara síðan til Noregs. Að einhverju marki hefur þetta verið að gerast á síðustu áratugum en það hefur áhrif nákvæmlega á okkar svæði að Grænland stýrir mjög mikið brautum lægða og Grænland er ekki að fara neitt í bili. Þannig að þau áhrif eru ekki jafn stór og jafn auðmerkjanleg og maður myndi búast við t.d. í Kyrrahafinu.“

Í Ástralíu hafa verið miklir skógareldar og síðan mikil úrkoma og flóð. Halldór segir að þar sem skógareldar eru algengir komi þeir í hrinum.  

„Það er annað sem er mjög mikilvægt að hafa í huga, sérstaklega þegar við tölum um skógarelda, að þá sjáum við yfirleitt myndir af fólki sem er í húsum sem eru að brenna og þarf að flýja. Það skiptir mjög miklu máli hvernig við umgöngumst þessa vá og hvernig fólk hefur t.d. í Kaliforníu flutt inn í hverfi sem eru á hættusvæðum og er svo náttúrlega að lenda í vandræðum þegar koma skógareldar. Það hefði sennilega gerst án nokkurra loftslagsbreytinga.“

Nauðsynlegt að stýra uppbyggingu á skóglendi

Halldór segir að þegar menn tali um skógarelda sé vert að hafa í huga hvernig uppbyggingu á skóglendi hefur verið stýrt. 

„Það var mjög lengi þannig vestanhafs að það var reynt að koma í veg fyrir alla skógarelda,líka smæstu elda. Það þýddi að hægt og rólega byggðist upp meiri eldsmatur og nú hafa menn reynt að víkja frá þessari stefnu en það er ákaflega erfitt,segja mér sérfræðingar í þessu sem vinna við þetta. Það er ákaflega erfitt að koma inn í þetta hverfi og segja, hér er skógareldur fyrir norðan ykkur við ætlum ekki að reyna að slökkva hann því við erum búin að komast að því að það sé slæm hugmynd. Fólk verður náttúrlega mjög æst og vill láta stöðva þennan skógareld sem ógnar þeirra húsi. En að lokum er það þannig að ef menn stöðva alla skógarelda sem eru litlir þá fer þetta að lokum allt í einum mjög stórum. Og þetta tengist því hvernig menn umgangast skóginn og hvernig menn umgangast í raun og veru náttúruna. Oft erum við búin að færa okkur á staði þar sem við erum berskjaldaðri fyrir breytileika í náttúru og þá fer saman sá tilflutningur og síðan það að það eru meiri þurrkar. Þar með myndi bakgrunnsáhættan á slæmum skógræktartíma aukast og þá er þetta bókstaflega eldfim blanda.“ 

Úrkoma verður ákafari

„Eitt af því sem gerist þegar heimurinn hlýnar er að úrkoma verður ákafari. Og það merkilega er að þetta getur gerst á svæðum þar sem þornar. Þar sem mun rigna minna yfir árið en þá rignir meira þegar rignir á annað borð. Og svo á svæðum þar sem er að aukast úrkoma, það er þó nokkuð af þeim svæðum m.a. hjá okkur, þar mun líka rigna ákafar þegar rignir á annað borð. Þetta þýðir yfirleitt að flóðahætta eykst því flóð verða mjög gjarnan þegar mjög mikið af úrkomu fellur á mjög skömmum tíma. Þetta má sjá mjög víða og ummerki þess eru að verða nokkuð ljós.“ 

Íslendingar skoði hvernig þeir umgangast gróður 

Halldór segir að Íslendingar þurfi nú að hafa í huga hvernig þeir umgangast gróður því gróður sé að aukast mjög mikið.

„Og við erum loksins búin að sjá einn gróðureld sem var virkilega slæmur, á Mýrunum fyrir nokkrum árum síðan, og búumst við því að geta séð annað eins víðar þar sem hefur vaxið upp nokkurt skóglendi og kjarrlendi. Það má segja að þetta sé svona áhætta sem sé vaxandi og menn þurfa að umgangast þessa vá af þeirri virðingu sem þarf að sýna allri náttúruvá. Þetta er einfaldlega þannig að náttúran getur verið skeinuhætt. En ef menn eru einbeittir og passa sig og byggja ekki á slæmum svæðum eða reyna að fella tré sem eru næst sumarbústöðum eða rafmagnslínum eða annað þá drögum við alltaf úr áhættunni á skógareldum og það er í raun og veru það sem við munum þurfa að gera.“
 

Fréttinni var breytt 15.2.2020: Fyrirsögn fréttarinnar var breytt til að eiga betur við efni hennar.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi