Óvissustig vegna snjóflóðahættu og vegum lokað nyrðra

21.02.2020 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Búið er að lýsa yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum á ný vegna snjóflóðahættu. Óvissustigi var aflýst á mánudag, en nú hefur snjóað og skafið mikið frá því á miðvikudagskvöld og talsverður snjór hefur safnast bæði í fjöll og á láglendi.

Aðeins er vitað um eitt flóð í veðrinu. Það féll úr Norðurgili í Súgandafirði og náði út í sjó. Það var ekki stórt og olli ekki flóðbylgju. Spáð er áframhaldandi skafrenningi í dag með ofankomu og möguleiki er talinn á því að fleiri meðalstór eða stór snjóflóð falli. Ekki er talin vera hætta í byggð eins og er, en fylgst er náið með stöðunni.

Opið er um Flateyrarveg og Súðavíkurhlíð, en vakin athygli á óvissustiginu. 

Mikil hætta er einnig talin vera á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga. Lokað er vegna ófærðar og snjóflóðahættu um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúli er einnig lokaður vegna hættu. Ekki eru líkur á að vegurinn opni í dag.