Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi

09.12.2019 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi tekur gildi klukkan átta í fyrramálið. Búast má við að snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð vegna veðurs.

Spáð er mikilli snjókomu í mjög hvassri norðaustan-, og síðan norðanátt, á svæðinu. Fylgst verður með snjóflóðahættu í byggð. Varnir hafa verið reistar í þéttbýli þar sem hættan var áður mest, svo sem Siglufirði.

Á vef Veðurstofunnar segir að viðbúið sé að snjóflóð falli í bröttum brekkum sem safna í sig snjó í norðaustan- og norðanátt, einkum þar sem snjór safnist í gil.

Viðvörunarstig hefur verið fært úr appelsínugulu yfir í rautt annað kvöld fyrir Strandir og Norðurland vestra. Þetta er í fyrsta sinn sem viðvörun er færð upp í rautt. Víðast annars staðar á landinu er appelsínugul viðvörun.