Óvissustig á Flateyri á ný eftir lítið snjóflóð

16.01.2020 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var aftur lýst yfir við Flateyri nú klukkan sex eftir að lítið snjóflóð féll nokkuð utan byggðar á svæðinu. Stefnt var að því að opna Flateyrarveg þar sem Vegagerðin vann að mokstri í dag, en nú er bið á því að vegurinn opni á ný. Almannavarnir eru að meta ástandið.

Samhæfingarmiðstöð er enn að störfum í Skógarhlíð, en dagurinn hefur meðal annars farið í að vinna í eftirmálum snjóflóðanna. Þyrla Landhelgisgæslunnar hélt síðdegis í sitt fjórða flug til Vestfjarða síðan snjóflóðin féllu í fyrrakvöld. Þyrlan hefur sinnt mikilvægu hlutverki við að flytja mannskap og búnað frá höfuðborgarsvæðinu, til Flateyrar og Ísafjarðar. Formenn stjórnarflokkanna fóru með þyrlunni í dag til þess að kynna sér aðstæður, auk forsvarsmanna helstu viðbragðsstofnana. Tveir ljósastaurar voru felldir við bensínstöðina á Flateyri til þess að bæta lendingarstað fyrir þyrluna.  

Mynd með færslu
Mynd: Birkir Einarsson Mynd: Mynd: Birkir Einarsson
Lítið snjóflóð féll utan byggðar á Flateyri á sjötta tímanum.

Rúmlega 20 björgunarsveitarmenn eru að störfum á Flateyri. Helstu verkefni þeirra hafa verið snjómokstur og björgun verðmæta í húsinu sem varð fyrir flóðinu. Fjöldahjálparstöð er enn opin á Flateyri þar sem áfallateymi Rauða krossins er að störfum. Á Suðureyri fer teymi í heimsóknir til fólks. Verið er að skipuleggja áframhaldandi stuðning við íbúa.

Varðskipið Þór er komið að bryggju á Flateyri. Fyrir það þurfti að skanna höfnina og athuga hvort þar væri einhver fyrirstaða. Í dag var olíutankur hífður upp, en talið er að 12 til 15 þúsund lítrar af olíu hafi farið í sjóinn þegar bátar sukku í höfninni. Vonir standa til að hreinsun hefjist á morgun. Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur kannað eignir sem skemmdust í flóðinu og segir að svo virðist sem þær séu tryggðar, að frátalinni flotbryggjunni á Flateyri.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi