Óvissa um trúnað eftir fund með ráðherra

20.09.2019 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óvíst er hvort kjörnir fulltrúar séu bundnir trúnaði yfir upplýsingum sem þeim voru kynntar varðandi endurbætur á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Efni fundarins er nú í raun úrelt og á meðan koma misvísandi upplýsingar fram í fjölmiðlum án þess að hægt sé að bregðast við.

Þetta segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi BF Viðreisnar í Kópavogi, í samtali við fréttastofu. Bæjarfulltrúar voru boðaðir á fund þann 11. september þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, kynnti áform um uppbygginguna í samgöngumálum. Óskað var eftir trúnaði yfir öllum þeim upplýsingum sem þar komu fram.

Í gærmorgun bárust svo fréttir af því að drög að breyttu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga hafi verið send bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu í fyrrakvöld. Áður hafði verið greint frá því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi farið fram á það við samgönguráðherra að hann frestaði undirritun samkomulagsins sem búið var að boða.

Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Theodóra fram bókun þar sem hún spurði hvort trúnaður um fundinn þann 11. september væri enn í gildi. Nú væri búið að fjalla um ný drög að samkomulagi í fjölmiðlum án þess að kjörnir fulltrúar mættu í raun bregðast við. 

„Þetta er svolítið skrítin staða. Við erum búin að fylgjast með borgarlínunni mjög lengi. Svo kemur nýr vinkill varðandi veggjöld þar sem allt kemur meira og minna fram í fjölmiðlum,“ segir Theodóra. Hún furðar sig á því að fundur með ráðherra hafi verið haldinn í flýti.

„Maður hafði trú á því að það væri sátt um þetta hjá ríkisstjórnarflokkunum. Það hefði verið lykilatriði, að fá kynningu frá ráðherra samgöngumála um eitthvað sem búið væri að vinna hjá ríkisstjórninni,“ segir Theodóra. Það hafi því komið á óvart að ekki væri komin sátt um málið í ríkisstjórn.

Enn er óvíst hvenær skrifað verður undir samning sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um fyrirhugaða uppbyggingu í samgöngumálum.

„Ef samningur er undirritaður þarf að gera það með fyrirvara um samþykki bæjar- og borgarstjórna. Það á eftir að fara til umræðu þar og ekki ljóst hvenær það kemst á dagskrá,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi