Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óvissa um stuðning við þriðja orkupakkann

12.11.2018 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Iðnaðarráðherra segir óvíst hvort meirihluti sé fyrir því á Alþingi að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi. Skiptar skoðanir eru meðal stjórnarþingmanna en ráðherra segir að sú gagnrýni sem hafi komið fram byggist að sumu leyti á misskilningi.

Þriðji orkupakkinn lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp í febrúar á næsta ári til að innleiða hann hér á landi.  Ísland hefur þegar samþykkt fyrri tilskipanir þessa efnis en deilt er um hvort í pakkanum felist valdaframsal á orkumálum til Evrópustofnana.

Hverfafélög Sjálfstæðismanna í Reykjavík og kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi hafa skorað á forystumenn ríkisstjórnarinnar að hafna orkupakkanum á þessum forsendum. Þá hafa tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, einnig lýst yfir efasemdum.

Tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks eru með málið á sinni könnu, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðnaðarráðherra. 

„Það eru auðvitað fyrirvarar við málið örugglega í öllum þremur stjórnarflokkunum og af þeim fyrirvörum og áhyggjum höfum við vitað frá upphafi. Ég vil líka að það komi fram að þetta er ekki mál sem ég sem orkumálaráðherra óskaði sérstaklega eftir. Þetta er fylgifiskur þess alþjóðlega samstarfs sem við erum í. Þetta er bara sú staða sem er uppi núna og við vinnum í því og höldum áfram að skoða málið mjög vandlega,“ segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðnaðarráðherra.

Formaður Sambands garðyrkjubænda hefur líka gagnrýnt orkupakkann og segir borðleggjandi að íslensk garðyrkja leggist af ef hann verður samþykktur en hann óttast að raforkuverð hér landi muni hækka við innleiðingu tilskipunarinnar. Ráðherra segir að þessi gagnrýni byggist á misskilningi.

„Ráðuneytið birti leiðréttingu á þessum ummælum og ég held að það sé enginn áhugi fyrir því að innleiða hér mál sem hefðu slík dramatísk áhrif á heila atvinnugrein,“ segir Þórdís.

Hún vill þó ekki fullyrða hvort meirihluti sé fyrir málinu á Alþingi.

„Það verður bara að koma í jós hvernig landið liggur hérna í þinginu. Þetta er þvert á flokka og stjórnarandstaðan ekki sameinuð á einum stað. Þannig að þetta getur farið á alla vegu,“ segir Þórdís.