Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óverjandi dómgreindarbrestur og í engu samræmi

11.02.2019 - 12:25
Mynd:  / 
Forsætisráðherra gagnrýnir ákvörðun bankaráðs Landsbankans um að hækka laun bankastjórans og segir hana vera óverjandi og í engu samræmi við aðrar hækkanir á vinnumarkaði. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins kallar hækkunina óverjandi dómgreindarbrest og segir að hún sé slæmt innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður.

Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans, um 17 prósent í fyrra, eða sem nemur 550 þúsund krónum, og eru laun hennar nú 3,8 milljónir á mánuði. Þetta kom fram í Fréttablaðinu um helgina. Þar sagði ennfremur að laun hennar hafi nú hækkað um 82% frá 2017.

„Mér finnst þetta óskiljanleg ákvörðun hjá stjórn Landsbankans sem fékk tilmæli árið 2017 frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra um að gæta hófs í sinni starfskjarastefnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Hér sjáum við 82% hækkun á launum þessa bankastjóra ríkisbankans frá árinu 2017. Sem er auðvitað úr takti við alla almenna launaþróun í samfélaginu. Langt umfram til dæmis umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafa nú brugðist við. Við höfum lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna skuli héðan í frá vera fastbundin launaþróun á hinum opinbera markaði. Þannig að mér finnst þessi ákvörðun auðvitað vera úr öllum takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir,“ segir Katrín.

Í starfskjarastefnu hins opinbera segir að laun skuli vera hófleg en samkeppnishæf. „Það þarf þá að spyrja þeirrar spurningar við hvern er þá verið að miða þegar talað er um samkeppnishæf laun því þessi laun eru til dæmis langt fyrir ofan fjármála- og efnahagsráðherra sem að fer með málefni bankanna í gegnum Bankasýslu ríkisins,“ segir forsætisráðherra. „Ég þekki ekki þann veruleika þar sem 82 prósenta launahækkun á þessum skamma tíma gæti talist hófleg,“ segir Katrín sem telur að taka þurfi starfskjarastefnuna til endurskoðunar. „Ef stjórn Landsbankans kýs að túlka hana svona þá þarf kannski að fastbinda hana miklu betur.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur í sama streng.

„Mér finnst þessi launahækkun sem nýverið var tilkynnt um, mér finnst hún vera slæmar fréttir inn í yfirstandandi kjaraviðræður. Og þetta gerist hjá banka í eigu ríkisins, gengur þvert á vilja eigenda bankans, og er í senn óskynsamleg og óverjandi ákvörðun að mínu mati. Þessi hækkunartaktur sem þarna birtist stenst enga skoðun eða viðmið á vinnumarkaði.“

Bankinn segir að laun bankastjórans hafi nú verið færð nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja, í því ljósi, er þetta ekki eðlilegt?

„Þetta er ríkisfyrirtæki. Og ríkisfyrirtækjum eru settar strangari skorður en öðrum fyrirtækjum. Til allrar hamingju virðist sem þessi hækkunartaktur sé undantekning frekar en regla ef við lítum til stærstu fyrirtækja landsins. Það gerir hins vegar hvorki lítið úr alvarleika málsins, né þeim dómgreindarbresti sem birtist í þessari ákvörðun,“ segir Halldór Benjamín.