Ríkisfjármálaáætlun verður lögð fram í þinginu á næstu dögum og Willum segir að markmiðið sé að skila í afgang einu prósenti af vergri þjóðarframleiðslu, alls tæpum þrjátíu milljörðum króna. Lífskjarasamningarnir séu mikilvægt innlegg í þá vinnu. Þá leggi ríkisstjórnin sérstaka áherslu á öflugt atvinnulíf „Kraftmikið samkeppnishæft atvinnulíf er okkar keppikefli því það fer ávallt saman og er í senn forsenda lífsgæða og bættra lífskjara,“ sagði Willum og lagði áherslu á öflugt atvinnulíf um allt land, sjálfbæra nýtingu auðlinda og efla velferð á öllum sviðum. „Það er þess vegna sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur áherslu á þróttmikið efnahagslíf til þess að treysta megi til framtíðar atvinnulíf, vöxt verðmætasköpunar og velferð.“
Willum Þór sagði í ræðu sinni ánægjulegt og forréttindi að fá að styðja þessa ríkisstjórn og vinna ásamt samstilltum hópi að framfaramálum. Síðustu fjárlög byggi á traustari grunni en um langt skeið og því margir möguleikar til að sækja fram. Stefnt sé að því að auka framlög til samgöngumála, heilbrigðis- og velferðarmála, nýsköpunar og umhverfis- og loftslagsmála.