Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óvenjulegur fornleifafundur

10.08.2015 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, segir að hellirinn Leynir í Neshrauni á Snæfellsnesi sé einn óvenjulegasti fornleifafundur aldarinnar.

Hellirinn fannst óvænt í fyrravetur og kom mönnum í opna skjöldu. Í sjónvarpsfréttum RÚV á föstudag kom fram að í hellinum eru um níu hundruð ára gamlar mannvistarleifar en engar heimildir eru um að menn hafi hafst við á þessum slóðum þá. Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, segir þennan fund afar merkan.

„Þessi fornleifafundur er einhver sá óvenjulegasti á þessari öld. Þetta eru mjög óvenjulegar minjar sem er erfitt að skýra, þetta er óvenjuleg ráðgáta sem við erum að eiga við.“

Adolf segir að þarna sé stakur atburður - maður sem hafi farið í helli, hafst þar við í skamman tíma og eldað sér hrossakjöt. Óvenjulegt sé að fornleifafræðingar fái tækifæri til að skoða svo afgerandi minjar, því yfirleitt skoði þeir samansafn af minjum á einum stað. Þarna eru nýjar heimildir um mannvistarleifar og erfitt sé að gera sér grein fyrir tilurð þeirra.

„Það sem er skemmtilegast við þetta er að þetta dýpkar tilfinningu manns fyrir því hvað við vitum í raun lítið. Við höfum ritaðar heimildir um söguna en það er fornleifafræðin sem alltaf getur bætt einhverjum nýju og óvæntu við.“

Það vekur einnig athygli Adolfs að maðurinn í hellinum hafi neytt hrossakjöts, en það var bannað á þessum tíma eftir kristnitöku.

„Í raun ef maður skoðar vitnisburð fornleifafræðinnar þá virðist það hafa frekar verið óvenjulegt að menn hafi yfir höfuð neytt hrossakjöts, hvort sem er í heiðni eða kristni. Þessi maður hefur farið mjög leynt með sína hrossakjötsneyslu.“

Minjastofnun rannsakar hellinn í september og er vonast til að þá komi betur í ljós hvað fór fram í hellinum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
anna.kristin.palsdottir's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV