Óveðursfundi frestað vegna óveðurs

13.02.2020 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Ekkert verður af fyrirhuguðum fundi Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda í Víðihlíð í kvöld. Þar átti að fjalla um eftirmál óveðursins um miðjan desember. Búið var að bóka framsögumenn og hvetja fólk til að mæta. Nú hefur fundinum hins vegar verið aflýst. Ástæðan nokkurn veginn sú sama og upphaflega fundarboðunin: Veðrið.

„Opnum fundi um eftirmál óveðursins sem halda átti í Víðihlíð í kvöld er frestað vegna veðurs. Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda,“ mátti heyra í samlesnum auglýsingum RÚV í dag. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og nú félagasamtaka hafa aflýst atburðum eða tilkynnt lokun vegna yfirvofandi óveðurs. Og að lokum fór svo að fundi um afleiðingar óveðurs er frestað vegna óveðurs.

Einar Kristján Jónsson, formaður Almannavarnarnefndar Húnavatnssýslna, ætlaði að fara yfir viðbrögð almannavarna og þörf á úrbótum, Magnús Magnússon formaður samráðshóps um áfallahjálp í Húnavatnssýslum, ætlaði að fara yfir vinnu og viðbrögð samráðshópsins við afleiðingum óveðursins í desember. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, hugðist fara yfir skráningar á tjóni sem bárust til sveitarfélaganna og Benedikt Árnason, formaður átakshóps, ætlaði að ræða úrbætur á innviðum í framhaldi af fárviðrinu 10. og 11. desember auk þess sem Anna Margrét Jónsdóttir ætlaði að segja frá sameiginlegu útboði á rafstöðvum.

Auk þessa átti að leggja að ríkisstjórninni að veita fjármagni til að greiða bætur vegna umfangsmikils tjóns á svæðinu, meðal annars vegna hrossa sem fórust og afurðataps hjá kúabændum.

Ekkert verður þó af þessu í kvöld, vegna veðurs, en það bíður betri tíma og væntanlega veðurs.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV