Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óútskýrður launamunur ekki til staðar

23.08.2019 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarfjarðarbær
Kynbundinn launamunur er ekki til staðar hjá Hafnarfjarðarbæ. Þetta sýna niðurstöður viðhaldsúttektar á jafnlaunakerfi Hafnarfjarðarbæjar. Þar kemur fram að óútskýrður launamunur kynjanna sé ekki lengur til staðar, karlar séu þó enn með tveimur prósentum hærri laun heilt yfir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. 

Þar segir einnig að eftir að sveitarfélagið fékk jafnlaunavottun fyrir tveimur árum hafi launamunurinn minnkað um tæp þrjú prósent. Hafnarfjarðarbær hafi verið fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá jafnlaunavottun og jafnlaunamerkið frá velferðarráðuneytinu árið 2017. Í febrúar sama ár hafi sveitarfélagið samþykkt jafnréttis- og mannréttindastefnu sem starfað er eftir. 

„Við höfum tekið jafnlaunavinnu okkar mjög alvarlega og afraksturinn hefur ekki látið á sér standa. Óútskýrður launamunur heyrir nú sögunni til og þróun í kynbundnum launamun í þessu langtímaverkefni mjög jákvæð á stuttum tíma. Árangurinn er afrakstur vinnu stjórnenda sveitarfélagsins og hefur verið einhugur innan hópsins að ná þessu markmiði,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar í tilkynningunni. Framundan sé áframhaldandi vinna.