RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Óttinn við orðin

Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Sum orð eru vandmeðfarnari en önnur, merkingar sinnar vegna. Ástæðurnar eru ýmsar. Orð geta verið særandi og meiðandi. Þau geta fengið nýja og breytta merkingu. Orð geta verið mjög gildishlaðin og leiðandi og jafnvel breytt merkingu þess sem sagt er t.d. þannig að það sem á að vera hlutlaus umræða verður það ekki. Síðast en ekki síst breytist orðanotkun mjög hratt. Oft finnst ákveðnum þjóðfélagshópum vegið að sér með tiltekinni orðanotkun. Þetta birtist á ýmsum sviðum.

Hópar í réttindabaráttu

Nú er yfirleitt talað um fólk með fötlun en ekki fatlaða, fólk með þroskahömlun en ekki þroskahamlaða, og alls ekki þroskahefta, fólk með einhverfu en ekki einhverfa svo nokkur dæmi séu tekin. Rökin fyrir því orðalagi eru að fólkið er með fötlun, þroskahömlun eða einhverfu o.s.frv. en það er ekki fötlunin, þroskahömlunin, einhverfan.

Almennt er talað um hinsegin fólk en áður var oftast talað um samkynhneigða. Lýsingarorðið samkynhneigður nær ekki nema yfir hluta þess hóps sem telst hinsegin og er því einfaldlega ekki rétt orð. Undir regnhlífarhugtakinu hinsegin rúmast margvíslegar kynhneigðir og fjölþætt kynvitund. Hinsegin var áður mjög neikvætt orð en hinsegin fólk tók það aftur á móti í sína þjónustu og sneri merkingunni við. Hinsegin dagar eiga vafalaust sinn þátt í þeim viðsnúningi.

Kynþáttur

Stundum þarf að gera greinarmun á fólki eftir litarhætti. Best er auðvitað að gera ekki slíkan greinarmun en stundum er hann nauðsynlegur, t.d. í fréttaflutningi af  því þegar hvítir lögreglumenn í Bandaríkjunum myrða unga blökkumenn.

Það er ljóst að við tölum aldrei um negra og ekki um gula menn eða skáeygða þótt það hafi verið gert á árum áður. Það er gott að við lögðum þessi orð af. Oftast er talað um Asíubúa, eða fólk af asískum uppruna og þykir ekki niðrandi. Orðin blökkumaður og svertingi hafa líka verið notuð en upp á síðkastið er farið að amast við þeim. Það er ef til vill fyrir áhrif frá erlendri pólitískri rétthugsun, í Bandaríkjunum er talað um African Americans og þá höldum við að við verðum að forðast slík orð. En það eru bara Bandaríkin. Ég held að það sé almennt talað um black people í breskri ensku og sorte mennesker í Norðurlandamálunum. Svertingi og blökkumaður hafa ekki verið talin niðrandi orð á íslensku. Við tölum líka hiklaust um hvíta menn. Það fer svo eftir samhengi hvort eitt er verra en annað.

Trú og stríð

Eftir hryðjuverkin í París hefur Daesh víða heyrst notað um hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, eins og þau eru oftast kölluð í fréttum RÚV, eða hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið. Fréttamenn RÚV nota ekki skammstafanirnar IS, ISIL eða ISIS. Heitið Íslamska ríkið er vissulega ekki til þess fallið að draga úr fordómum í garð múslima en þetta er heitið sem hefur verið notað um nokkuð langa hríð og fólk er farið að þekkja það. Auk þess hafa þeir ríkisfjölmiðlar sem við berum okkur oftast saman við ákveðið að taka ekki upp Daesh, svo sem BBC og NRK. 

24.11.2015 kl.13:20
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið