Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast uppsagnir vegna verkefnaskorts

09.10.2019 - 19:09
Mynd: Sturla Skúlason / RÚV
Formaður Sambands iðnfélaga hefur áhyggjur af verkefnaskorti og uppsögnum með vorinu. Ríki og sveitarfélög þurfi að fara í auknar framkvæmdir til að koma í veg fyrir frekari niðursveiflu.

Samdráttur í sölu sements og steypustyrktarjárni mælist um 20 til 30 prósent milli ára, samkvæmt Samtökum iðnaðarins. Velta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð dregst saman í fyrsta sinn í sex ár. Erlendu starfsfólki í byggingariðnaði fækkar og þá dregur úr nýjum íbúðalánum. 

„Við höfum verulegar áhyggjur af þeirri verkefnastöðu sem verður núna með vorinu. Við viljum sjá að það verði sett í gang þau verkefni sem þarf að setja í gang meðal ríki og sveitarfélaga. Annars gæti komið til uppsagna hjá okkar félagsmönnum,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hvatti sveitarfélög til aukinna framkvæmda á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku. „Ríkið ætlar að auka við fjárfestingastigið, það færi vel á því þar sem það á við hjá sveitarstjórnarstiginu. Aðalmálið er að við töpum ekki mörgum árum í fjárfestingu. Það þarf að auka hana og hún hefur verið of lág opinbera fjárfestingin of lengi,“ segir Bjarni.

Ný útlán til fyrirtækja, þá ekki bara innan verktakageirans, drógust saman um 52 prósent á fyrstu átta mánuðum ársins eða um 90 milljarða milli ára, samkvæmt nýjustu hagtölum Seðlabankans.  

„Við höfum áhyggjur af því að þessi dýfa sé dýpri en hún þarf að vera, ef ekkert verður gert. Og svo höfum við líka áhyggjur af því að við sjáum ekki vaxtalækkanir skila sér til fyrirtækja þannig þau geti fjármagnað sig á hagstæðari hátt. Við höfum áhyggjur af stöðunni og viljum koma hjólum atvinnulífsins í gang,“ segir Hilmar.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV