Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast tvísköttun á höfuðborgarsvæðinu

29.09.2019 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn lýsa áhyggjum af því hvernig hugmyndir um gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu verða útfærðar. Þeir lýstu á hyggjum af tvísköttun á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndirnar er að finna í samkomulagi stjórnvalda og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu í samgöngumálum. Samgönguráðherra sagði gjaldtökuna vera með öðrum hætti en þá sem hann hafnaði fyrir síðustu kosningar.

Samkomulag stjórnvalda og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var til umræðu í Silfrinu í morgun þar sem þrír formenn stjórnarandstöðuflokka á þingi voru ásamt oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn.

Stórundarlegt mál

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi samkomulagið. „Þetta er bara stórundarlegt mál að mínu mati að ríkisstjórnin eða fulltrúar ríkisvaldsins skuli undirrita samning til fimmtán ára, sem felur í sér útgjöld upp á 120 milljarða, svo vitum við hvernig það verður, það verður eflaust á endanum miklu meira, og gera þetta án þess svo mikið sem að kynna málið í þingnefnd, án þess að vera reiðubúin að leggja fram samningsdrögin áður en þetta er undirritað.

Sigmundur gagnrýndi líka að gjaldtakan félli jafnvel verst á tekjulágt fólk.

Stóru heitu kartöflurnar ekki í samningnum

Aðrir gagnrýndu galdtökuna. Þeirra á meðal Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. „Það sem er ekki í samningnum eru stóru heitu kartöflurnar, eitt af því er gjaldtakan. Ef við förum yfir hvar eru nýju peningarnir að koma?“ sagði hann og svaraði sjálfur. Af fé sem ríkið legði til kæmi fimmtungur úr ríkissjóði en afgangurinn af gjaldtöku.

„Ef fólk úti á landi borgar ekki fyrir að fara í göng sem kosta kannski hundrað milljarða en við eigum að borga tvisvar, þeir sem eru enn að borga jarðefnaeldsneytisskatt verða að borga tvisvar. Þá er kominn höfuðborgarskattur og við verðum að passa að það verði ekki,“ sagði Eyþór.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Silfrið í heild sinni.

Gæta þeirra sem hefur verið þrýst í úthverfin

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinar, fagnaði samkomulaginu í meginatriðum. Hann sagði mikilvægt að vinda ofan af því fyrirkomulagi sem hefði byggst upp síðustu áratugi, að fólk yrði að vera á bíl til að komast leiðar sinnar. Hann sagði þó að þingið ætti eftir að taka afstöðu til samkomulagsins og athuga þyrfti ýmsa hætti. „Við eigum eftir að ræða þessar gjaldtökuhugmyndir. Við þurfum að koma í veg fyrir að þær bitni á fólki sem hefur þurft og verið þrýst út í úthverfin. Það er eftir.“

Óttast aukaálagningu á höfuðborgarsvæðinu

„Það sem er hins vegar gagnrýnivert, verulega gagnrýnivert, er gjaldtakan og hvernig fyrirkomulagið er áætlað,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. „Ég óttast að það verði um tvísköttun að ræða, að það verði aukaálagning á fólk hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er allt mjög óljóst um það að sama fyrirkomulag eigi að gilda um allt land.“

Beiðni frá sveitarfélögunum

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði gjaldtökuna öðruvísi en sú sem hann hafnaði fyrir kosningar, um gjaldtöku á aðalvegi í kringum höfuðborgarsvæðið. Þessi hugmynd væri komin frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu svo að þau hefðu meira um það að segja hvernig uppbyggingin og þróunin yrði á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum hér að leysa mjög margan vanda með því að setja saman í stóran framkvæmdapakka,“ sagði Sigurður Ingi. Hans verkefni sem samgönguráðherra hefði verið að leiða saman fólk með ólíkar skoðanir og fá alla til að samþykkja að þeirra lausn væri ekki sú eina rétta. Þvert á móti yrði að flétta saman lausnum til að takast á við vandann.

Ósætti meðal þeirra sem vilja ganga lengst í hvora átt

„Þeim sem vilja ganga lengst í bíllausum lífstíl finnst framkvæmdirnar ganga of langt fyrir bílana. Ég heyrði menn hérna áðan sem eru mjög afturhaldslegir í hugsun og vilja held ég aftur fara til 1950 halda því fram að hér væri verið að fara framkvæmda eitthvað fyrir almenningssamgöngur og hjólandi og gangandi sem væri bara tilgangslaust,“ sagði Sigurður Ingi. „Þessum hópum sem eru úti á kantinum líst ekki á þetta en þetta er lausn fyrir 220 þúsund manns sem búa hér og alla landsmenn,“ sagði Sigurður Ingi.